Þróttur, topplið 1. deildar, hefur fengið Stjörnumanninn Jón Arnar Barðdal að láni út tímabilið.
Jón Arnar, sem er tvítugur, hefur leikið sjö leiki með Stjörnunni í deild og bikar í sumar og skorað eitt mark.
Hann er hluti af hinum sigursæla 1995-árgangi í Stjörnunni sem varð Íslandsmeistari í 2. flokki 2013 og 2014.
Þróttarar eru að styrkja sig fyrir lokasprettinn í 1. deildinni en þeir hafa einnig fengið úgandska miðjumanninn Tonny Mawejje til liðs við sig í félagaskiptaglugganum. Á móti kemur að Þróttur missir Davíð Þór Ásbjörnsson og Rafn Andra Haraldsson út í nám til Bandaríkjanna áður en tímabilið klárast.
Þróttur hefur tapað tveimur leikjum í röð en er samt enn á toppi 1. deildar með 27 stig, einu stigi á undan Víkingi Ólafsvík.
Þróttur sækir botnlið BÍ/Bolungarvíkur heim á morgun þar sem Jón Arnar gæti leikið sinn fyrsta leik með nýja liðinu.
