Körfubolti

Adidas býður Harden 27 milljarða samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden.
James Harden. Vísir/Getty
NBA-leikmaðurinn James Harden fær ekki bara há laun frá körfuboltafélaginu sínu Houston Rockets því stórir íþróttavöruframleiðendur keppast einnig um undirskrift hans.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að íþróttavöruframleiðandinn Adidas ætli að reyna að stela Harden frá Nike með því að bjóða kappanum 200 milljón dollara fyrir þrettán ára samning.

Það gera tæplega 27 milljarða íslenskra króna og gæti auðveldlega orðið meira en Harden fær fyrir að spila fyrir Houston Rockets á sama tíma.

Samningur Harden og Nike var að renna út en Nike hefur fram til loka næstu viku til að bjóða honum samskonar samning. Fái Harden ekki svo gott tilboð frá Nike mun hann semja við Adidas.

Harden skrifaði undir samning við Houston Rockets árið 2012 sem færir honum 80 milljón dollara fyrir að spila með liðinu út 2017-18 tímabilið.

Adidas hefur verið aðalíþróttavöruframleiðandi NBA-deildarinnar en mun ekki endurnýja samning sinn við deildina og Nike mun taka við eftir 2016-17 tímabilið.

NBA-deildin fékk 400 milljónir dollara frá Adidas fyrir ellefu ára samning og Harden er því að fá tilboð upp á helming þeirrar upphæðar. Þetta er því einstakt tilboð sem Harden er með í höndunum.

James Harden átti frábært tímabil með Houston Rockets síðasta vetur, var stigahæsti leikmaður deildarinnar með 27,4 stig í leik og annar í kjörinu á besta leikmanni deildarinnar á eftir Stephen Curry.

Leikmenn NBA-deildarinnar kusu hinsvegar James Harden besta leikmann tímabilsins en auk þess að skora 27,4 stig í leik þá var hann einnig með 7,0 stoðsendingar og 5,7 fráköst að meðaltali í leik.

Harden er enn bara 25 ára gamall og á því sín allra bestu ár eftir í NBA-deildinni. Hann spilaði með Oklahoma City Thunder frá 2009 til 2012 en hefur spilað með Houston Rockets.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×