Körfubolti

Endurtekning á NBA-úrslitunum á jóladag

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Tveir af bestu körfuknattleiksmönnum heims leiða saman hesta sína á jóladag.
Tveir af bestu körfuknattleiksmönnum heims leiða saman hesta sína á jóladag. Vísir/Getty
NBA-deildin gaf út í gær leikjadagskráina fyrir NBA tímabilið sem hefst þann 27. október næstkomandi. Leika bæði liðin sem léku til úrslita í fyrra, Cleveland Cavaliers og Golden State Warriors, leik fyrsta kvöldið.

Hefð er fyrir því í NBA-deildinni að meistararnir leiki fyrsta kvöldið heimaleik þegar sérstakur fáni verður reistur til minningar um meistaratitilinn. Þá fá leikmenn á sama tíma afhenda sérstaka meistara hringi sem félagið útbýr en Golden State leikur gegn New Orleans Pelicans í síðasta leik fyrsta NBA-kvöldsins í vetur.

Þá var einnig tilkynnt hvaða leikir færu fram á jóladegi en hefð hefur skapast fyrir því að NBA-deildin setji ýmsa stórleiki á jóladag. Enginn verður svikinn af veislunni í ár þegar endurtekning verður á úrslitaleik NBA-deildarinnar í San Fransisco þar sem Golden State Warriors tekur á móti Cleveland Cavaliers.

Veislan á jóladag hefst með leik New Orleans Pelicans og Miami Heat en því fylgir leikur Chicago Bulls og Oklahoma City Thunder í Oklahoma. Þriðji leikur dagsins er endurtekning á úrslitaleiknum en körfuknattleiksveislunni lýkur ekki þar.

Því fylgir sannkallaður Texas-slagur þegar Houston Rockets tekur á móti San Antonio Spurs áður en lokaleikur dagsins, baráttan um Los Angeles, milli Los Angeles Lakers og Los Angeles Clippers fer fram.

Þá verða áhugaverðir leikir þann 11. nóvember næstkomandi þegar DeAndre Jordan leikur eina leik sinn í Dallas á tímabilinu en Jordan eins og frægt er orðið sveik munnlegt samkomulag sitt við Dallas Mavericks og skrifaði undir nýjan samning hjá Los Angeles Clippers.

Sama kvöld snýr LaMarcus Aldrige aftur til Portland í fyrsta sinn eftir að hafa gengið til liðs við San Antonio Spurs í sumar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×