Í samtali við Vísi sagði Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, að svona mál væru yfirleitt unnin í samstarfi við hin Norðurlöndin. Ferðaviðvörunin væri gefin út ef ske kynni að einhver Íslendingur væri á svæðinu eða ef einhverjir hygðust ferðast til Sharm el Sheikh. Ráðuneytið hefur þó ekki upplýsingar um að einhver Íslendingur sé staddur á svæðinu.
Mikil óvissa hefur ríkt í Sharm el Sheikh síðustu daga frá því að flugvél rússneska flugfélagsins Metrojet hrapaði yfir Sínai-skaga þann 31. október. Fjöldi ferðalanga hefur verið strandaður á flugvellinum í borginni eftir að yfirvöld í Bretlandi og öðrum ríkjum takmörkuðu flugferðir þangað.
Ekki liggur ljóst fyrir hvað grandaði flugvélinni en sérfræðingar segjast vera 90 prósent vissir um að sprengja hafi sprungið um borð.