Körfubolti

Jón Arnór með stig á mínútu í sigri Valencia í toppslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Getty
Jón Arnór Stefánsson og félagar í Valencia Basket héldu sigurgöngu sinni áfram í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Valencia Basket vann þá sjö stiga heimasigur á Laboral Kutxa Baskonia, 8-78 í toppslag tveggja taplausra liða.

Jón Arnór Stefánsson átti flottan leik enn hann skoraði 12 stig á 12 mínútum og hitti úr 5 af 7 skotum sínum. Jón Arnór var einnig með 2 fráköst og 1 stoðsendingu.

Það voru þrír leikmenn Valencia sem skoruðu meira en Jón Arnór en þeir léku allir mun fleiri mínútur en hann. Stigahæstur var Bandaríkjamaðurinn Justin Hamilton með 20 stig.

Valencia Basket var þremur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 20-17, og komið með sjö stiga forskot í hálfleik, 44-37.

Jón Arnór hitti úr öllum þremur skotum sínum í fyrri hálfleiknum og var þá með sjö stig á sjö mínútum.

Laboral Kutxa Baskonia kom sér inn í leikinn með því að vinna þriðja leikhlutann 23-17.

Liðsmenn Valencia Basket voru sterkari í lokaleikhlutanum og unnu flottan sigur. Þeir eru þar með eina taplausa lið deildarinnar ásamt Barcelona.

Þetta er það mesta sem Jón Arnór Stefánsson hefur skorað í einum leik með Valencia Basket í spænsku deildinni á þessu tímabili en hann var með 5,0 stig að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×