Íslenski boltinn

Pablo Punyed samdi við ÍBV

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pablo Punyed með Bjarna Jóhannssyni, þjálfara ÍBV, og Óskari Erni Ólafssyni, formanni knattspyrnudeildar.
Pablo Punyed með Bjarna Jóhannssyni, þjálfara ÍBV, og Óskari Erni Ólafssyni, formanni knattspyrnudeildar. vísir/vilhelm
Pablo Punyed, landsliðsmaður El Salvador í fótbolta, samdi í dag við ÍBV í Pepsi-deild karla, en hann hefur spilað með Stjörnunni undanfarin tvö ár. Hann gerði tveggja ára samning við ÍBV.

Punyed kom fyrst til Íslands 2012 og spilaði þá með Fjölni í 1. deildinni, en hann flutti sig svo til Fylkis þar sem hann spilaði í efstu deild 2013.

Punyed heillaði marga með kraftmikilli frammistöðu sinni á miðjunni og varð svo Íslandsmeistari með Stjörnunni í fyrra.El Salvadorinn spilaði í heildina 39 deildarleiki fyrir Stjörnuna og skoraði fjögur mörk.

Hann birti í dag kveðju til Stjörnumanna á Twitter-síðu sinni þar sem hann þakkar fyrir tvö góð ár. „Þetta var erfið ákvörðun en ég vil þakka ykkur fyrir frábæran tíma. Ég verð alltaf stuðningsmaður Stjörnunnar og verð smá blár og hvítur í mínu hjarta,“ segir Punyed.

Pablo Punyed er þriðji lykilmaðurinn sem Stjarnan missir eftir tímabilið, en áður voru farnir Michael Præst í KR og Gunnar Nielsen í FH.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×