Körfubolti

Thompson magnaður og Golden State vann á ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Golde State Warriors er komið aftur á beinu brautina eftir að hafa tapað sínum fyrsta leik á tímabilinu um helgina.

Meistararnir unnu sannfærandi sigur á Phoenix, 128-103, þar sem Klay Thompson fór á kostum og skoraði 43 stig, þar af 27 í þriðja leikhluta. Steph Curry bætti við 25 stigum en hann nýtti alls tíu af fjórtán skotum sínum í leiknum. Hann gaf þar að auki sjö stoðsendingar.

Golden State er nýkomið aftur á sinn heimavöll eftir tveggja vikna ferðalag sem lauk með tapi fyrir Milwaukee á laugardagskvöldið. Golden State hafði þa unnið 28 leiki í röð sem er næstlengsta sigurganga liðs í sögu NBA-deildarinnar.

Mirza Teletovic skoraði 24 stig fyrir Phoenix eftir að hafa byrjað á bekknum. Phoenix átti þó aldrei möguleika í þessum leik.

San Antonio vann Washington, 114-95, og þar með sinn 23. heimaleik í röð sem er félagsmet. Sigurinn í nótt var öruggur en Kawhi Leonard skoraði 27 stig fyrir heimamenn.

Oklahoma City vann Portland, 106-90, en þetta var sjötti sigur liðsins í röð. Kevin Durant var með 24 stig fyrir Oklahoma City en engu liði hefur tekist að skora meira en 100 stig gegn Oklahoma City síðustu sjö leiki í röð.

New York vann Minnesota, 107-102, þar sem Kristaps Porzingis var magnaður með ellefu stig, sex fráköst, sex varin skot og þrjár stoðsendingar. Karl-Anthony Towns, sem var valinn fyrstur allra í nýliðavalinu, var með 25 stig og tíu stoðsendingar fyrir Minnesota.

Austurdeildin er gríðarlega jöfn í ár en tíu efstu liðin í henni hafa öll unnið 14-16 leiki í ár. Cleveland er þó með besta sigurhlutfallið en liðið var eitt fárra sem spilaði ekki í nótt.

Golden State og San Antonio eru með drjúga forystu í Vesturdeildinni en Oklahoma Ciyt og LA Clippers, sem vann Milwaukee í nótt, koma þar á eftir.

Staðan í deildinni

Úrslit næturinnar:

Indiana - Dallas 107-81

Orlando - Charlotte 113-98

Brooklyn - Miami 98-104

Detroit - Boston 119-116

New York - Minnesota 107-102

Atlanta - Philadelphia 127-106

Chicago - Memphis 98-85

Oklahoma City - Portland 106-90

San Antonio - Washington 114-95

Utah - New Orleans 94-104

Golden State - Phoenix 128-103

LA Clippers - Milwaukee 103-90

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×