Körfubolti

Golden State þurfti tvær framlengingar til að vinna Boston | Úrslitin í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Curry skoraði 38 stig í nótt þrátt fyrir að hafa ekki hitt vel fyrir utan.
Curry skoraði 38 stig í nótt þrátt fyrir að hafa ekki hitt vel fyrir utan. vísir/getty
Sigurganga Golden State Warriors í NBA-deildinni heldur áfram en í nótt vann liðið sinn 24. leik í röð þegar það lagði Boston Celtics að velli, 119-124, eftir tvíframlengdan leik.

Golden State lék án Klay Thompson og Harrison Barnes en tókst samt að halda ótrúlegri sigurgöngu sinni áfram. Meistararnir þurftu þó að hafa mikið fyrir hlutunum gegn Boston-liðinu.

Stephen Curry hitti illa í leiknum (33,3%) en endaði samt með 38 stig, 11 fráköst og átta stoðsendingar. Draymond Green átti einig frábæran leik með 24 stig, 11 fráköst, átta stoðsendingar, fimm stolna bolta og fimm varin skot.

Kelly Olynyk var heitur hjá Boston og skoraði 28 stig af bekknum. Avery Bradley kom næstur með 19 stig.

LeBron James skoraði 25 stig og gaf átta stoðsendingar þegar Cleveland Cavaliers vann nokkuð þægilegan sigur, 76-111, á Orlando Magic á útivelli. Þetta var 12. sigur Cleveland á Orlando í röð.

Rússinn Timofey Mozgov bætti 17 stigum við fyrir Cleveland sem er í efsta sæti Austurdeildarinnar með 15 sigra og sjö töp.

San Antonio Spurs lagði Los Angeles Lakers að velli, 109-87, en Spurs er í 2. sæti Vesturdeildarinnar. Lakers er hins vegar í tómu tjóni og hefur aðeins unnið þrjá af 23 leikjum sínum í vetur og situr á botni Vesturdeildarinnar.

LaMarcus Aldridge gerði 24 stig fyrir San Antonio og tók 11 fráköst og Patty Mills skoraði 22 stig af bekknum.

Hjá Lakers var D'Angelo Russell atkvæðamestur með 24 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar. Kobe Bryant skoraði aðeins 12 stig.

Úrslitin í nótt:

Boston 119-124 Golden State

Orlando 76-111 Cleveland

San Antonio 109-87 LA Lakers

Indiana 96-83 Miami

Philadelphia 95-107 Detroit

Toronto 90-83 Milwaukee

Memphis 99-123 Charlotte

New Orleans 107-105 Washington

Denver 111-108 Minnesota

Utah 90-94 Oklahoma

Phoenix 96-106 Portland

Curry skilaði 38 stigum gegn Boston Derrick Favors treður með látum Bestu tilþrif næturinnar
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×