Skoðun

Að alast upp með níðingum

Þórarinn Ævarsson skrifar

Sif Sigmarsdóttir, rithöfundur og fastur penni Fréttablaðsins, upplýsti alþjóð um það í grein sem birtist í blaðinu þann sjötta mars sl. að faðir minn, Ævar Jóhannesson, væri níðingur svipaðrar tegundar og Nígeríusvindlarar eða þá þeir sem standa fyrir píramídasvindli.



Þessa upphefð hlaut hann fyrir að hafa með blekkingum vélað lúpínuseyði ofan í tvær aldraðar, lífsreyndar en eldklárar frænkur Sifjar fyrir margt löngu. Þessi skuggalega starfsemi stóð yfir í áratugi, en talið er að yfir tíu þúsund Íslendingar hafi orðið þessum níðingi að bráð. Þar sem ég er þess umkominn, tel ég fulla ástæðu til að varpa ljósi á þessi myrkraverk.



Hafandi alist upp í föðurhúsum, og verið síðasti unginn til að yfirgefa hreiðrið, þá gafst mér einstakt tækifæri til að fylgjast með verkum þessa níðings frá því að hann hóf iðju sína og í mörg ár þar á eftir.

Níðingurinn faðir minn, sem hefur til fjölda ára haft mikinn áhuga á heilbrigðu líferni, byrjaði eins og níðingum er tamt á sakleysislegan hátt með því að benda fólki á ýmis hollræði, t.a.m. að hvetja barnshafandi konur til að reyna að forðast kvikasilfursfyllingar í tennur og hlaut þá bágt fyrir hjá tannlæknum. Hann barðist gegn flúorblöndun drykkjarvatns á höfuðborgarsvæðinu, benti á gagnsemi ómettaðra fitusýra, trefjaríkra matvæla og inntöku magnesíums, en það, rétt eins og tannfyllingarnar, er auðvitað fásinna.



Seyði skyldi það vera

Steininn tók síðan úr fyrir tæpum 40 árum þegar níðinginn dreymdi afar skýran draum sem var honum í ljósu minni daginn eftir. Í draumnum kom fram uppskrift og aðferð við að sjóða jurtaseyði og fylgdi með að þetta seyði ætti að geta gert eitthvert gagn. Verandi níðingur, þá var ekkert annað í stöðunni en að safna saman þeim jurtum sem fram komu í draumnum og prófa þetta.



Helsjúkur vinur níðingsins var nýttur sem tilraunadýr og þegar hann braggaðist, þá fengu fleiri vinir hans að prófa drykkinn. Mönnum þótti hann ekki verri en svo að þeir komu aftur og fengu ábót. Þetta spurðist síðan út og með árunum fjölgaði þeim stöðugt sem sáu ástæðu til að heimsækja níðinginn og fá hjá honum seyði.

Sem fyrr segir, þá var ég áhorfandi að þessu öllu saman og get ekki með nokkru móti sagt að þetta hafi verið unglingnum að skapi. Heimilið varð á endanum undirlagt af framleiðslu á lúpínuseyðinu. Það var soðið á öllum hellunum á eldavélinni, þannig að maður fékk stundum ekki að borða fyrr en eftir dúk og disk, nú eða komast í bað, þar sem baðkarið var fyllt með ísköldu vatni og notað til að halda seyðinu köldu á heitum sumardögum. Sumarfrí urðu aldrei lengri en langar helgar, því það þurfti að komast í bæinn til að framleiða meira.



Allt var þetta gert svo níðingurinn gæti fullnægt annarlegum hvötum sínum og afhent blásaklausum fórnarlömbunum, sem stóðu nú í röð við útidyrnar, ókeypis lúpínuseyði. Rafmagnsreikningur níðingsins, sem hann greiddi reyndar samviskusamlega úr eigin vasa, var á endanum svipaður og í lítilli blokk, en hver er að fást um það.

Staðreyndin er sú, Sif, að faðir minn fékk köllun. Hann hafði óbilandi trú á því sem hann var að gera og það hafði fjöldi manns í kringum hann líka. Hundruð manna lögðu fram vinnu sína kauplaust svo hægt væri að halda þessu úti. Ástæðan fyrir því að allt þetta fólk var tilbúið að leggja þetta á sig er margþætt.



Betri lífsgæði en ella

Einhverjir hlutu bata af veikindum sínum og þökkuðu það seyðinu. Einhverjir áttu ættingja eða ástvini sem þökkuðu þessu seyði bætt lífsgæði. Síðan er það einfaldlega hópurinn sem vissi hver Ævar Jóhannesson var og hafði trú á að þetta væri ekki snákaolía heldur eitthvað stórmerkilegt.



Ævar Jóhannesson var ekki einhver meðalmaður þegar þetta byrjaði allt saman, heldur einn virtasti og framsæknasti uppfinninga- og vísindamaður landsins. Hann starfaði til fjölda ára við vísindastörf hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og hannaði m.a. hina stórmerku Íssjá, og notaði til þess aðferðir sem þótti sannað að gætu ekki gengið upp. Þá uppgötvaði hann sem ungur maður aðferðina sem er notuð í heiminum í dag til að framkalla litfilmur. Skammsýni ráðandi afla varð þess valdandi að ekki varð hann ríkur af þessari uppgötvun frekar en öðru. Þessi tvö dæmi sem ég nefni sýna djúpan skilning og þekkingu Ævars á efna-, eðlis- og rafmagnsfræði, en á sama tíma sýna þau takmarkaðan áhuga hans á veraldlegum gæðum.



Í fjöldamörg ár var ég vitni að því að fólk með alls konar sjúkdóma bankaði upp á hjá foreldrum mínum. Þetta fólk á það sameiginlegt að það var tekið vel á móti því, hlustað á það og því sýnd virðing og hluttekning. Um þetta geta þúsundir velunnara föður míns borið vitni. Fólk var aldrei hvatt til að hætta krabbameinsmeðferð og því var aldrei lofað bata. Fólki var hins vegar bent á að svo virtist sem fólk þyldi krabbameinsmeðferðina betur þegar það drykki seyðið auk þess sem ýmsir aðrir kvillar virtust jafnvel minnka eða hverfa. Ekki veit ég til þess að nokkrum manni hafi orðið meint af þessu seyði.



Þetta fólk á það líka sameiginlegt að það þurfti aldrei að reiða fram svo mikið sem eina krónu fyrir seyðið, öll þessi ár, þó talsverður fjöldi manna hafi ekki tekið mótbárur föður míns gildar og skilið eftir lítilræði. Seyðið hefur verið rannsakað bæði hér á landi og erlendis, og er ekki annað að sjá en að faðir minn hafi hitt naglann á höfuðið þarna eins og stundum áður.



Vísindavefurinn: Hvaða lækningagildi hefur lúpínan?



Ævistarfið lítilsvirt

Ég hef því miður ekki erft neina af hæfileikum föður míns og er svipað vitlaus og þú, Sif. Ég er efasemdamaður og það er útilokað að ég færi að vinna ókeypis fyrir bláókunnugt fólk svo áratugum skipti. Menn eins og faðir minn eru hins vegar í útrýmingarhættu og eiga allt annað skilið á síðustu metrunum en að á þá sé ráðist og óeigingjarnt ævistarf þeirra lítilsvirt, til þess að þú getir sett þig í töffarastellingar.



Ég ætlaði ekki að svara þér og var að vonast til að ömurleg grein þín hefði farið fram hjá föður mínum, en svo er því miður ekki. Það að draga saman í einn dilk alla þá fjölmörgu aðila sem koma að óhefðbundnum lækningum og kalla þá níðinga lýsir í besta falli dómgreindarleysi, hroka og fáfræði. Þú ert ekki bara að hrauna yfir hann, heldur stóran hóp samstarfsaðila sem allir unnu að þessu af heilindum og í sjálfboðavinnu. Þú ert einnig að segja við þær þúsundir einstaklinga sem upplifðu bætt lífsgæði eftir að hafa drukkið seyðið að þeir séu trúgjarnir einfeldningar sem ekki eru dómbærir á eigin líðan.



Þegar saga læknavísindanna er skoðuð kemur í ljós að marga af skelfilegustu sjúkdómunum sem herjuðu á fólk hér á árum áður, t.a.m. skyrbjúg og beinkröm, mátti koma í veg fyrir með einföldum breytingum á mataræði. Þeir sem bentu á þetta á sínum tíma voru sannarlega að benda á óhefðbundnar lækningar á þeirra tíma mælikvarða og hlutu iðulega bágt fyrir, enda óhugsandi að það væri hægt að útrýma illvígum sjúkdómum með sítrónum eða hýðishrísgrjónum.



Að mínu mati ættir þú að íhuga vel hvort þú eigir yfir höfuð erindi til þjóðarinnar með frekari skrifum fyrir Fréttablaðið og mér kæmi ekki á óvart, að ef eldklárar frænkur þínar sem minnst er á í upphafi væru enn meðal vor, þá hefðu þær verið mér sammála.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×