Körfubolti

Þristur frá Jakobi gulltryggði sigurinn í Póllandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Sigurðarson.
Jakob Sigurðarson. Vísir/Andri Marinó
Jakob Sigurðarson og félagar hans í sænska liðinu Borås Basket unnu í kvöld sinn fyrsta sigur í riðlakeppni 32 liða úrslita FIBA Europe bikarsins.

Borås Basket liðið hafði tapað tveimur fyrstu leikjum sínum en vann fimm stiga sigur á pólska liðinu Slask Wroclaw í kvöld, 86-81. Slask Wroclaw hafði eins og Borås tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í riðlinum.

Þetta var einni fyrsti útisigur Borås-liðsins í Evrópukeppninni síðan að liðið sótti sigur til Austurríkis í byrjun nóvember.

Jakob skoraði tólf stig í leiknum í kvöld en hann hitti úr 4 af 9 skotum sínum utan af velli og lék í rúmar 29 mínútur. Þriðji þristur Jakobs í leiknum kom Borås tíu stigum yfir, 86-76, þegar 65 sekúndur voru eftir af leiknum.

Jakob var þriðji stigahæstur há Borås-liðinu í leiknum en aðeins þeir Omar Krayem (22 stig) og Christian Maraker (14 stig, 14 fráköst), skoruðu meira. Jakob  nýtti 3 af 4 þriggja stiga skotum sínum í þessum leik

Liðsmenn Slask Wroclaw unnu fyrsta leikhlutann 26-25 og voru þremur stigum yfir í hálfleik, 49-46.

Pólverjarnir voru 67-63 yfir þegar rúm mínúta var eftir af þriðja leikhlutanum en þá tóku við frábærar mínútur fyrir gestina.

Munurinn var eitt stig fyrir lokaleikhlutann, 67-66, en Borås-liðið vann fyrstu átta mínútur fjórða leikhlutans 15-6 og lagði grunninn að sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×