Íslenski boltinn

Heimir: Var ákveðinn pirringur innan félagsins sem þurfti að leysa úr

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Heimir Guðjónsson þungt hugsi á KR-vellinum.
Heimir Guðjónsson þungt hugsi á KR-vellinum. Vísir/Stefán
Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistaranna í FH, var í viðtali í útvarpsþætti Fotbolti.net í dag þar sem farið var um víðan völl.

Ræddu þeir meðal annars ótrúlegt gengi FH seinni hluta mótsins en margar spurningar fóru á loft eftir tap FH gegn KR þegar mótið var rétt rúmlega hálfnað.

„Það var mikil samheldni og samkennd í leikmannahópnum í fyrra. Við vissum að við þyrftum að breyta einhverju eftir tapið gegn KR. Við tókum okkur saman og fórum að spila betur saman sem heild heldur en við gerðum í fyrri umferðinni.“

Þá ræddi Heimir um ferðina til Azerbaídjan fyrir leik liðsins gegn Inter Baku og hvaða áhrif sú ferð hafði.

„Leikmennirnir tóku sig saman, héldu fund og fóru yfir málin. Við þjálfararnir fórum síðan yfir það og fundum út hvað þyrfti að laga. Við vissum að það þyrfti að láta verkin tala inn á vellinum. Við litum aldrei til baka eftir það.“

Heimir tók undir að andrúmsloftið hefði verið skrýtið í Kaplakrika um tíma síðasta sumar.

„Eftir nokkrar umferðir var ákveðinn pirringur innan félagsins sem þurfti að vinna á. Það tók á að ná sér eftir leikinn gegn Stjörnunni árið áður og það sat kannski eitthvað í okkur.“

Heimir fann fyrir pressuni á þeim tímapunkti.

„Maður er ekki fenginn til félagsins til þess að vera Halli og Laddi. Það eru kröfur til þess að skila árangri,“ sagði Heimir en hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan sem hefst á 1:02:30.

Þar ræðir Heimir meðal annars þróun í þjálfara- og leikmannamálum á Íslandi undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×