Íslenski boltinn

Milos: Því fylgir ábyrgð að fá mann eins og Gary Martin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Milos Milojevic, þjálfari Víkings í Pepsi-deild karla í fótbolta, var brosið eitt á blaðamannafundi Fossvogsfélagsins í kvöld þar sem Gary Martin var kynntur sem nýr leikmaður félagsins. Enski framherjinn kom til Víkings frá KR eftir þrjú og hálft ár í Vesturbænum og Milos viðrkenndi fúslega að hann væri í skýjunum.

„Það er engin spurning og ég er ekkert að fela það,“ sagði Milos við Vísis í kvöld, en hvað ætlar hann stjörnuframherjanum að gera fyrir liðið?

Sjá einnig:Gary Martin: Get ekki lýst áhuganum sem Víkingur sýndi mér

„Fyrst og fremst sé ég Gary sem mjög góðan leikmann. Ég hef þekkt hann mjög lengi, eða síðan hann var að spila með góðvini mínum, Igor Pesic, hjá ÍA.“

„Ég veit allt um Gary og finnst hann frábær karakter. Hann er líka öðruvísi en karakter en leikmennirnir sem eru fyrir í liðinu. Hann kemur okkur á næsta stig og gefur okkur þá greddu sem vantar,“ sagði Milos.

Gary Martin er kominn í svart og rautt úr svörtu og hvítu.vísir/ernir
Gott að fá Robba og Gary

Víkingur fékk fyrr í vetur Róbert Örn Óskarsson, markvörð Íslandsmeistara FH, og nú Gary Martin sem hefur verið einn besti framherji deildarinnar. Eru þetta skilaboð um hvað Víkingar ætla sér í sumar?

„Við erum ekkert að fela neitt. Að fá þessa tvo fylgir mikil ábyrgð og ég er mjög ánægður með það. Ég vil mikla ábyrgð og mikla pressu. Það fylgir þessu starfi,“ sagði Milos.

„Ég vil reyna að berjast um alla leikmenn sem eru bestir á Íslandi. Það er gott að fá Robba og Gary. Þetta eru menn sem eru vanir að spila um titla með stórum liðum og við ætlum okkur að koma Víkingi aftur á þá braut sem félagið var á fyrir rúmum 20 árum.“

Gary Martin hefur ekki alltaf verið barnanna bestur og er duglegur að tala opinskátt um hlutina ef hann er ósáttur. Hann getur stundum verið svolítið erfiður.

„Leikmenn sem eru með egó geta verið erfiðir en það er spurning hvernig þjálfari ræður við það. Ég er ekki að fara í stríð við Gary heldur erum við að fara saman í skemmtilegt verkefni,“ sagði Milos, en ætla Víkingar að bæta við sig fleiri leikmönnum?

„Við erum að skoða í kringum okkur. Fyrst er ég hrifinn af því að fá leikmenn sem ég þekki vel sem persónur og fótboltamenn. Þess vegna vanda ég mig og því erum við ekkert að kaupa í einhverju stressi.“

„Okkur vantar kannski í eina stöðu í viðbót og við erum að skoða í kringum okkur bæði hér og erlendis,“ sagði Milos Milojevic.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Gary Martin samdi við Víking

Enski framherjinn færir sig úr Vesturbænum í Fossvoginn og spilar með Víkingum í Pepsi-deildinni næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×