Körfubolti

DeAndre-reglan orðin að veruleika í NBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DeAndre Jordan.
DeAndre Jordan. Vísir/EPA
Áhugamenn um NBA-deildina í körfubolta gleyma eflaust ekki í bráð atburðarrásinni í kringum það þegar DeAndre Jordan skipti um skoðun síðasta sumar eftir að hafa gert áður munlegt samkomulag við Dallas Mavericks.

Liðsfélagar hans hjá Los Angeles Clippers fjölmenntu heim til hans og sannfærðu miðherjann öfluga um að vera áfram hjá Clippers.

Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks, fagnaði því mikið þegar DeAndre Jordan gerði þetta munlega samkomulag við Mavs, en svo hætti Cuban að ná í DeAndre Jordan. Hann svaraði engum símtölum.

Nokkrir leikmenn Los Angeles Clippers höfðu þá lokað sig inni með DeAndre Jordan á heimili hans í Houston og áður en Cuban fékk að koma með einhvern mótleik þá var það orðið staðfest að Jordan var búinn að semja aftur við Clippers-liðið.

Nú hefur NBA-deildin og leikmannasamtök deildarinnar breytt reglum sínum til þess að minnka möguleikana á öðrum eins farsa í framtíðinni.

Fyrirkomulagið hefur verið þannig að 1. júlí mega félög byrja að tala við leikmenn með lausan samning en það má ekki ganga frá samningnum við þá fyrr en tíu dögum síðar.

Þessu hefur nú verið breytt, því í sumar má ganga frá samningum strax 6. júlí eða aðeins fimm dögum eftir að félög mega byrja að ræða við leikmenn.  

Það þarf því ekki að koma mörgum á óvart að NBA-spekingar eru farnir að kalla þetta DeAndre-regluna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×