Körfubolti

Nýja höllin hjá Milwaukee Bucks lítur út eins og bjórtunna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýja höllin í Milwaukee.
Nýja höllin í Milwaukee. Mynd/Milwaukee Bucks
NBA-körfuboltaliðið Milwaukee Bucks hyggur á framkvæmdir á næstunni en á dagskrá er að byggja nýja og glæsilega íþróttahöll.

Milwaukee Bucks hefur spilað í Bradley Center frá árinu 1988 en sú höll er orðin eins sú elsta í NBA-deildinni. Það eru bara Madison Square Garden hjá New York Knicks (1968) og Oracle Arena hjá Golden State Warriors (1966) sem eru eldri.

Milwaukee Bucks setti teikningar af nýrri höll á Twitter en höllin, sem er í miðbæ Milwaukee, mun kosta um 500 milljónir dollara og verður væntanlega tekin í notkun í september 2018.

Borgarstjórn Milwaukee hefur samþykkt að leggja til helminginn af kostnaðinum við bygginguna en eins og hjá mörgum öðrum minni borgum í Bandaríkjunum þá búa borgaryfirvöld alltaf við hættuna að missa lið í burtu. Höllin fékkst samþykkt og því verða Bucks áfram í Milwaukee.

Milwaukee Bucks er ungt og spennandi lið í NBA-deildinni og þó að það gangi ekki alltof vel hjá lærsveinum Jason Kidd í vetur þá má búast við því að liðið geti gert góða hluti með meiri reynslu.

Giannis Antetokounmpo (21 árs) og Jabari Parker (20 ára) eru báðir líklegir til að komast í hóp með bestu mönnum deildarinnar eftir nokkur ár og í liðinu eru margri fleiri ungir öflugir leikmenn.

Þegar menn sáu hinsvegar teikningarnar af höllinni voru margir fljótir að benda á það að hún liti út eins og bjórtunna á hliðinni. Dæmi nú hver fyrir sig á myndunum hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×