Körfubolti

Dauðvona Sager mætti í vinnuna í nótt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Steph Curry var ánægður að sjá Sager.
Steph Curry var ánægður að sjá Sager. vísir/getty
Þó svo íþróttafréttamaðurinn Craig Sager eigi líklega aðeins nokkra mánuði eftir ólifaða þá neitar hann að gefast upp.

Hann var mættur á hliðarlínuna í sjónvarpinu í nótt á leik Golden State Warriors og Washington Wizards.

Sager hefur verið að glíma við krabbamein síðustu ár og læknar tjáðu honum á dögunum að hann ætti aðeins þrjá til sex mánuði eftir ólifaða.

Sager er kominn með blóðtappa við hægra eyrað sem skerðir heyrn hans mikið. Það er eitt af mörgu sem hann er að glíma við.

Hann fékk höfðinglegar móttökur hjá bæði áhorfendum og leikmönnum enda er hinn skrautlegi Sager afar vinsæll.

„Það er frábært að sjá hann hérna en ég hef mikið verið að hugsa um hann og fjölskyldu hans upp á síðkastið. Það var því virkilega gaman að sjá hann í stuði,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Warriors.

Hinn 64 ára gamli Sager mun vera á vaktinni í Houston á fimmtudag en þar er hann í lyfjameðferð enda ekki búinn að gefast upp í baráttunni.

Sager vonast til þess að geta unnið út alla úrslitakeppnina.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×