Körfubolti

Larry Bird ætlar að skipta um þjálfara hjá Indiana-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Larry Bird.
Larry Bird. Vísir/Getty
NBA-körfuboltaliðið Indiana Pacers er að leita sér að nýjum þjálfara fyrir næsta tímabil því Larry Bird, forseti félagsins, vildi breyta til.

Larry Bird, einn af bestu leikmönnum NBA frá upphafi, ræður öll í Indiana Pacers, en hann hefur starfað hjá félaginu síðan að hann lagði skóna á hilluna eftir að hafa leikið allan sinn feril með Boston Celtics.

Frank Vogel hefur verið þjálfari Indiana Pacers liðsins undanfarin sex tímabil og undir hans stjórn vann liðið 250 af 431 leikjum í deildinni og 31 af 61 leik í úrslitakeppninni.

Síðasti leikur Indiana Pacers undir stjórn Frank Vogel var naumt tap í oddaleik á móti Toronto Raptors í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

„Ég ákvað það að það væri þörf á nýrri rödd," sagði Larry Bird. „Stundum er starfið mitt hundleiðinlegt. Ég hugsaði um þetta á meðan ég horfði á liðið spila á þessu tímabili," sagði Larry Bird en ESPN hefur þetta eftir honum.

Larry Bird hefur verið valinn besti leikmaður (1984, 1985, 1986), besti þjálfari (1998) og besti framkvæmdastjóri (2012) í NBA-deildinni en þeirri þrennu hefur enginn annar maður náð í NBA.  

„Ég bjóst við meiri af liðinu en flestir. Það er mín niðurstaða að það sé best að fá nýjan þjálfara. Ég ákvað því að framlengja ekki samninginn við Frank," sagði Bird.

„Ég tek það samt fram að ég er ekki að reka Vogel. Ég ákvað bara að semja ekki aftur við hann," sagði Bird.

Frank Vogel tók fyrst við Indiana-liðinu tímabundið í janúar 2011 þegar Jim O'Brien var rekinn. Hann gerði flotta hluti með liðið og liðið stríddi toppliði Chicago Bulls í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Það fór að ganga verr þegar Paul George fótbrotnaði og missti af nær öllu síðasta tímabili og svo sendi liðið einnig miðherjann Roy Hibbert til Los Angeles Lakers og missti reynsluboltann David West til San Antonio Spurs.

Larry Bird vildi að liðið spilaði hraðari boltann og ákvað á endanum að finna nýjan þjálfara á liðið. Það verður fróðlegt að sjá hvern hann fær til að stýra Pacers-liðinu á næstu leiktíð.

Óskar Ófeigur Jónsson
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×