Aflandeyjafélag leikkonunnar Emmu Watson var einvörðungu notað til fasteignakaupa. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá talsmanni leikkonunnar en fjallað er um málið á vef Independent.
Nafn leikkonunnar var að finna í Panama-skjölunum en hún var skráð sem eigandi félags sem var að finna á Bresku Jómfrúreyjum.
„Emma kom félaginu á laggirnar í þeim eina tilgangi að fela eignarhald á fasteign í hennar eigu. Það var gert til að vernda öryggi hennar og einkalíf,“ segir í yfirlýsingunni.
Leikkonan, sem er þekktust fyrir að leika Hermoine Granger í myndaseríunni um Harry Potter, hefur lent í brasi með eltihrella í gegnum tíðina. Meðal annars gekk hún svo langt að ráða rándýran lífvörð tið að tryggja öryggi sitt.
„Hér í Bretlandi hefði henni verið skylt að birta gögn sem hefðu getað ógnað öryggi hennar. Þess vegna valdi hún þennan kost. Ekkert skattahagræði fólst í þessu vali hennar.“
Watson notaði aflandsfélagið til að losna við eltihrella

Tengdar fréttir

Nafn leikkonunnar Emmu Watson í Panama-skjölunum
Talsmaður leikkonunnar staðfestir að hún eigi aflandsfélag.