Körfubolti

Rosalega mikill munur á því hvar LeBron og Steph eru að skora

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steph Curry og LeBron James.
Steph Curry og LeBron James. Vísir/Getty
Steph Curry hjá Golden State Warriors og LeBron James hjá Cleveland Cavaliers eru tveir bestu leikmenn NBA-deildarinnar og báðir á fullu þessa dagana með sínum liðum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Það er aftur á móti erfitt að finna ólíkari leikmenn en þessa tvo. Annar skorar helst langt fyrir utan þriggja stiga línuna en hinn vill komast að körfunni og nýta sér líkamlega yfirburði sína.

Þessi gríðarlegi munur á þeim félögum sést vel þegar tölfræðingarnir á ESPN skoðuðu hvar þeir hafa skorað körfurnar sínar í fyrstu tveimur leikjunum í úrslitum deildanna í úrslitakeppni NBA.

Þeir hafa skorað jafnmargar körfur í fyrstu tveimur leikjunum, Steph Curry hefur skorað 18 körfur í úrslitum Vesturdeildarinnar en 18 körfur í úrslitum Austurdeildarinnar.

Steph Curry hefur skorað þessar 18 körfur af samanlagt 105 metra færi (346 fet) sem þýðir að hann er að taka skotin sem fara ofan í körfuna að meðaltali af 5,9 metra færi (19,2 fet).

LeBron James hefur aftur á móti skorað sínar 18 körfur af samanlagt 9 metra færi (29 fet) sem þýðir að hans körfur eru að koma að meðaltali af um 0,5 metra færi (1,6 fet).

Þetta sést vel í samanburði ESPN Stats & Info hér fyrir neðan en þar eru tölurnar reyndar í fetum.

LeBron James er með 23,5 stig, 8,5 fráköst og 7,5 stoðsendingar að meðaltali í einvíginu á móti Toronto Raptors en Cleveland-liðið er komið 2-0 yfir. LeBron James var með þrennu í sigri í nótt (23 stig, 11 fráköst, 11 stoðsendingar). Næstu tveir leikir fara fram á heimavelli Toronto í Kanada.

Stephen Curry er með 27,0 stig, 6,0 fráköst og 5,0 stoðsendingar að meðaltali í einvíginu á móti Oklahoma City Thunder en þar er staðan jöfn. Golden State Warriors náði að jafna metin í síðasta leik en næstu tveir leikir fara fram á heimavelli Oklahoma City.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×