Körfubolti

LeBron náði Shaq í nótt en það er ennþá svolítið í Kobe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James komst í nótt upp um eitt sæti á listanum yfir stigahæstu leikmennina í sögu úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

LeBron James var með þrennu í sigri Cleveland Cavaliers á Toronto Raptors, skoraði 23 stig, tók 11 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.  Cleveland-liðið hefur nú unnið fyrstu tíu leiki sína í úrslitakeppninni í ár og er 2-0 yfir á móti Toronto í baráttu um sæti í lokaúrslitunum.

Cleveland vantar bara tvo sigra til að komast í úrslitin en það yrði þá í sjöunda skiptið sem LeBron James kæmist í úrslitaeinvígið um NBA-meistaratitilinn.

LeBron James komst upp fyrir Shaquille O'Neal þegar hann skoraði körfu eftir stoðsendingu frá Kevin Love í þriðja leikhlutanum í sigrinum á Toronto í nótt en þá var hann búinn að skora 5251 stig í úrslitakeppni.  Shaquille O'Neal skoraði á sínum tíma 5250 stig.

LeBron Jame hefur nú skorað 5255 stig í úrslitakeppni sem skilar honum í fjórða sætið á listanum. Þeir þrír sem eru nú fyrir ofan hann eru Michael Jordan (5987 stig), Kareem Abdul-Jabbar (5762 stig) og Kobe Bryant (5640 stig).

Svo skemmtilega vildi til að Kareem Abdul-Jabbar var meðal áhorfenda á leiknum í nótt en Abdul-Jabbar átti stigametið í úrslitakeppni áður en Jordan tók það af honum.

LeBron James hefur alls spilað 187 leiki í úrslitakeppni og er því með 28,0 stig að meðaltali í þeim. Hann er einnig með 8,8 fráköst og 6,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá þegar LeBron  James komst upp fyrir Shaquille O'Neal en í enda þess er líklega skemmtileg tafla með stigahæstu leikmönnum sögunnar í úrslitakeppni NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×