Körfubolti

Lést aðeins nokkrum tímum eftir þjálfaraviðtal hjá New York Knicks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean Rooks að störfum.
Sean Rooks að störfum. Vísir/AFP
Sean Rooks, sem lék á sínum tíma í NBA-deildinni í tólf ár, lést í gær aðeins 46 ára gamall eftir að hafa hnigið niður á veitingastað en hann var á uppleið sem framtíðar þjálfari í NBA-deildinni.

Sean Rooks var mjög vel liðinn innan NBA-fjölskyldunnar. Móðir hans gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem kom fram að hún hefði misst son sinn.

Sean Rooks var staddur á veitingarstað í Philadelphia. Hann var nýkominn frá New York þar sem hann fór í þjálfaraviðtal hjá New York Knicks.

Sean Rooks hitti þar nýja þjálfarann Jeff Hornacek, framkvæmdastjórann Steve Mills og forsetann Phil Jackson en þar ræddu þeir möguleikann á því að Rooks yrði aðstoðarþjálfari Jeff Hornacek á næsta tímabili.

Samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla gekk þessi fundur það vel að New York Knicks mennirnir voru bjartsýnir á það að Sean Rooks kæmi um borð og yrði aðstoðarmaður Hornacek. Sean Rooks var einmitt fæddur í New York borg árið 1969.

Það var nóg að gera hjá Sean Rooks sem átti að fljúga til Kína í framhaldinu þar sem hann átti að vinna kynningarstarf fyrir NBA-deildina.  Ekkert varð þó af þeirri ferð.

Sean Rooks sem var 208 sentímetra miðherji lék 749 leiki í NBA-deildinni með sex liðum frá 1992 til 2004. Rooks var valinn af Dallas Mavericks en lék einnig með liðum Minnesota Timberwolves, Atlanta Hawks, Los Angeles Lakers, Los Angeles Clippers, New Orleans Hornets og Orlando Magic. Hann hafði síðustu tvö ár unnið sem einkaþjálfari leikmanna Philadelphia 76ers.

Eftir að hann hætti að spila þá hafði hann byrjað á botninum og unnið sig upp sem þjálfari en þar á meðal var fimm ára starf hans í D-deildinni sem er þróunardeild fyrir NBA. Hann fékk síðan sitt fyrsta NBA-starf hjá Philadelphia 76ers og það leit út fyrir að hann væri að fá meiri ábyrgð í NBA-deildinni á komandi árum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×