Körfubolti

Þessi hringur skiptir hann meira máli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyronn Lue með þeim LeBron James, Kyrie Irving og Kevin Love.
Tyronn Lue með þeim LeBron James, Kyrie Irving og Kevin Love. Vísir/Getty
Tyronn Lue gerði Cleveland Cavaliers að NBA-meisturum á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari í NBA og hringurinn sem hann fær afhentan í nótt skiptir hann miklu máli.

Það verður mikið um dýrðir í Quicken Loans höllinni í kvöld þegar NBA-deildin í körfubolta fer aftur af stað.

Leikmenn og þjálfarar Cleveland Cavaliers fá meistarahringinn afhentan fyrir opnunarleik NBA-deildarinnar á milli Cleveland Cavaliers og New York Knicks.

Tyronn Lue tók við Cleveland-liðinu af David Blatt 22. janúar 2016 og undir hans stjórn varð liðið NBA-meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Tyronn Lue vann sjálfur tvo meistaratitla sem leikmaður Los Angeles Lakers 2000 og 2001. Hann yfirgaf Lakers í kjölfarið og vann ekki titilinn með þeim sex NBA-félögum sem hann spilaði með eftir það.

Tyronn Lue er ekki í vafa um hvaða hringur mun skipta hann mestu máli. Það er NBA-hringurinn sem hann fær afhentan í kvöld.

„Hann skiptir mig meira máli vegna alls þessa sem ég þurfti að ganga í gegnum. Þegar ég vann titlana með Lakers þá bjuggust allir við að við yrðum meistarar,“ sagði Tyronn Lue.

„Núna var okkur ekki spáð titlinum og við lentum líka 3-1 undir. Við þurftum líka að komast í gegnum ýmislegt á tímabilinu sjálfu. Þess vegna skiptir þessi titill mig meira máli en hinir tveir,“ sagði Tyronn Lue.

Cleveland Cavaliers vann 27 af 41 deildarleik undir hans stjórn í fyrra (66 prósent) en 16 af 21 leik í úrslitakeppninni (76 prósent).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×