Körfubolti

25 ár síðan Magic Johnson sjokkeraði heiminn | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Earvin "Magic“ Johnson er 57 ára gamall og enn í fullu fjöri,
Earvin "Magic“ Johnson er 57 ára gamall og enn í fullu fjöri, Vísir/Getty
7. nóvember 1991, eða fyrir nákvæmlega 25 árum síðan, varpaði NBA-körfuboltamaðurinn Magic Johnson sprengju inn í íþróttalíf Bandaríkjanna og alls heimsins. Earvin „Magic“ Johnson boðaði þá óvænt til blaðamannafundar og tilkynnti heiminum að hann væri HIV smitaður.

Á þessum tíma var eyðnismit sannkallaður dauðadómur en engin þekkt lækning er til við HIV smiti. Með meðferð er nú hægt að hægja á gangi sjúkdómsins og jafnvel halda honum niðri sem hefur sést í tilfelli Magic Johnson.

Magic Johnson var á þessum tíma stærsta stjarna NBA-deildarinnar ásamt Michael Jordan og Larry Bird og enn „bara“ 32 ára gamall. Hann tilkynnti um leið að hann væri búinn að setja körfuboltaskóna upp á hillu. Johnson spilaði aftur, þar á meðal á Ólympíuleikunum í Barcelona sumarið eftir en NBA-ferill hans sem slíkur var í raun á endan.

„Fram að þessum degi var það erfiðasta sem ég gerði að mæta mönnum eins og Michael Jordan eða Larry Bird. Þennan dag hófst baráttan fyrir lífi mínu. Guð gaf mér styrk til að koma fram og segja heiminum frá því að ég væri HIV smitaður,"skrifaði Magic Johnson inn á heimasíðu sína í tilefni af þessum tímamótum.

Magic Johnson var þarna búinn að vinna fimm NBA-meistaratitla frá 1980 og smitandi brosið og skemmtileg framkoma sá til þess að nær allur heimurinn vissi hver hann var.

„Í dag er hátíð lífsins. Ég held upp á það sem ég hef gengið í gengum eftir að hafa fyrir 25 árum fengið það sem flestir litu á sem dauðadóm,“ skrifaði Magic Johnson.

NBA minntist þessa dags með því að taka saman myndband frá þessum örlagaríka degi fyrir 25 árum síðan. Það er hægt að sjá þetta myndband hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×