Körfubolti

Treyja Duncans verður hengd upp í rjáfur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Duncan er goðsögn hjá San Antonio.
Duncan er goðsögn hjá San Antonio. vísir/getty
San Antonio Spurs mun heiðra Tim Duncan með því að hengja treyju hans, númer 21, upp í rjáfur í AT&T Center.

Treyja Duncans verður hengd upp í rjáfur við hátíðlega athöfn eftir leik San Antonio og New Orleans Pelicans 18. desember næstkomandi. Félagið tilkynnti þetta í dag.

Duncan lagði skóna á hilluna í sumar eftir 19 tímabil hjá San Antonio. Á þeim tíma vann liðið aldrei færri en 50 leiki, nema verkfallstímabilið 1998-99 þegar San Antonio vann 37 af 50 leikjum sínum.

Á nítján ára ferli Duncans hjá San Antonio komst liðið sex sinnum í lokaúrslit og varð fimm sinnum NBA-meistari.

Duncan, sem er af flestum talinn besti kraftframherji sem hefur spilað í NBA, var tvisvar sinnum valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar og þrisvar sinnum verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna.

Duncan verður áttundi leikmaðurinn í sögu San Antonio sem fær treyjuna sína hengda upp í rjáfur. Hinir eru Bruce Bowen, Johnny Moore, Avery Johnson, James Silas, Sean Elliott, George Gervin og David Robinson.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×