Fótbolti

Met KR-inga var í hættu í Meistaradeildinni í gærkvöldi en lifði af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þýska liðið Borussia Dortmund og pólska liðið Legia Varsjá settu nýtt met í Meistaradeildinni í gærkvöldi þegar tólf mörk voru skoruð í leik liðanna á Westfalenstadion.

Borussia Dortmund vann leikinn 8-4 en aldrei áður hafa verið skoruð tólf mörk í einum Meistaradeildarleik.

Leikmenn liðanna tókst þó ekki að bæta metið yfir flest mörk í einum leik í Evrópukeppni meistaraliða.

Það eiga KR-ingar enn með hollenska liðinu Feyenoord. Feyenoord vann 12-2 sigur á KR í leik liðanna á Feijenoord Stadion í Rotterdam 17. september 1969.

Feyenoord var 7-0 yfir í hálfleik og komst í 10-0 áður en KR-ingar náðu að komast á blað. Baldvin Baldvinsson minnkaði muninn í 10-1 á 75. mínútu og Baldvin var síðan aftur á ferðinni þegar hann minnkaði muninn í 10-2 á 83. mínútu.

Ruud Geels skoraði fernu fyrir Feyenoord-liðið í leiknum og Svíinn Ove Kindvall var með þrennu. KR-ingar skoruðu bara fjórtán prósent markanna en eiga samt óumdeilanlega þátt í þessu markameti.

Leikurinn var fyrri leikur liðanna í 32 liða úrslitum Evrópukeppni meistaraliða. Báðir leikirnir fóru fram út í Hollandi en Feyenoord vann seinni leikinn 4-0 þrettán dögum síðar og því 16-2 samanlagt.

Feyenoord sló AC Milan út í næstu umferð og fór alla leið í úrslitaleikinn þar sem liðið vann 2-1 sigur á Celtic í framlengdum úrslitaleik á San Siro, í Mílanó. Svíinn Ove Kindvall skoraði sigurmarkið.

Leikmenn Borussia Dortmund og Legia Varsjá tóku fleiri met í Meistaradeildinni en bara það yfir flest mörk í einum leik.

Japaninn Shinji Kagawa skoraði tvö mörk á 77 sekúndum og komu þau bæði eftir stoðsendingar frá Ousmane Dembélé.

Dortmund-liðið náði líka að skora þrjú mörk á aðeins 198 sekúndum þegar liðið breytti stöðunni úr 0-1 í 3-1.

Liðin náðu einnig að skora saman fimm mörk á aðeins tólf mínútum og sex sekúndum.

Áður en mörkin urðu tólf þá höfðu liðin sett met með því að skora sjö mörk á fyrstu 32 mínútunum. Gamla metið var 45 mínútur.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá öll tólf mörkin úr leik Borussia Dortmund og Legia Varsjá í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×