Körfubolti

Sjöunda þrenna Westbrooks í röð dugði Oklahoma ekki til sigurs | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Níu leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Russell Westbrook var með þrefalda tvennu þegar Oklahoma City Thunder tapaði 99-102 fyrir Houston Rockets á heimavelli. Þetta var sjöundi leikurinn í röð þar sem Westbrook nær þrennu.

Westbrook skoraði 27 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar í liði Oklahoma sem er í 6. sæti Vesturdeildarinnar. Steven Adams átti einnig góðan leik fyrir Oklahoma; skoraði 24 stig, tók 10 fráköst og nýtti átta af níu skotum sínum utan af velli.

James Harden, fyrrverandi liðsfélagi Westbrooks hjá Oklahoma, var aðeins einu frákasti frá því að ná þrennu í liði Houston. Harden skoraði 21 stig, tók níu fráköst og gaf 12 stoðsendingar.

Þríhöfða skrímslið hjá Cleveland Cavaliers var í góðum gír þegar meistararnir unnu öruggan sigur á Miami Heat, 114-84. Þetta var þriðji sigur Cleveland í röð en liðið er á toppnum í Austurdeildinni.

Kevin Love skoraði 28 stig og tók 15 fráköst en hann hefur spilað vel að undanförnu. LeBron James var með 27 stig, átta fráköst og átta stoðsendingar gegn sínum gömlu félögum og Kyrie Irving skoraði 23 stig.

Kyle Lowry skoraði 34 stig fyrir Toronto Raptors sem bar sigurorð af Boston Celtics, 94-101, á útivelli. Toronto er í 2. sæti Austurdeildarinnar.

Al Horford og Avery Bradley skoruðu 19 stig hvor fyrir Boston sem var án síns stigahæsta manns, Isiah Thomas, í leiknum í nótt.

Úrslitin í nótt:

Oklahoma 99-102 Houston

Cleveland 114-84 Miami

Boston 94-101 Toronto

Charlotte 109-88 Orlando

Milwaukee 110-114 Atlanta

Minnesota 90-117 Detroit

Dallas 111-103 Indiana

LA Lakers 115-119 Phoenix

Sacramento 100-103 NY Knicks

Leikur Oklahoma og Houston í draugsýn Kevin Love var heitur gegn Miami Flottustu tilþrif næturinnar
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×