Körfubolti

Butler skoraði 52 stig í sigri Bulls | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jimmy Butler, leikmaður Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta, fór á kostum fyrir sitt lið í nótt og skoraði 52 stig á 38 mínútum er Chicago lagði Charlotte Hornets á heimavelli, 118-111.

Þessi magnaði bakvörður skoraði úr 15 af 24 skotum sínum í teignum en aðeins eina þriggja stiga körfu. Hann tók 22 vítaskot í leiknum og hitti úr 21 þeirra en auk þess að skora stigin 52 tók hann tólf fráköst og gaf sex stoðsendingar.

LeBron James var stigahæstur meistara Cleveland sem höfðu betur gegn Pelicans á heimavelli, 90-82. LeBron skoraði 26 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar en liðið var án Kyrie Irving sem spilaði ekki vegna meiðsla.

Anthony Davis og Buddy Hield skoruðu báðir 20 stig fyrir New Orleans sem er búið að vinna fjórtán leiki á tímabili en Cleveland er búið að vinna 26, þar af 18 og tapa aðeins tveimur á heimavelli.

Golden State vann 30. sigur sinn í deildinni í nótt og þann 15. á heimavelli þegar liðið lagði Denver Nuggets, 127-119. Miðherjinn Draymond Green fór hamförum í leiknum og bauð upp á þrennu en hann skoraði fimmtán stig, tók tíu fráköst og gaf þrettán stoðsendingar.

Klay Thomson var stigahæstur Golden State en hann skoraði 25 stig og setti fjórar þriggja stiga körfur en Steph Curry skoraði 22 stig og setti þrjár þriggja stiga körfur í níu tilraunum.

Úrslit næturinnar:

Milwaukee Bucks - OKC Thunder 98-94

Cleveland Cavaliers - New Orleans Pelicans 02-82

Brooklyn Nets - Utah Jazz 89-101

NY Knicks - Orlando Magic 103-115

Chicago Bulls - Charlotte Hornets 118-111

Houston Rockets - Washington Wizards 101-91

LA Clippers - Phoenix Suns 109-98

Golden State Warriors - Denver Nuggets 127-119

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×