Hundruð þúsunda hafa mótmælt kjöri Aleksandars Vucic, nýs forseta Serbíu, frá kosningunum sem fóru fram 2. apríl síðastliðinn. Var gærdagurinn engin undantekning og greindi Independent frá því að þúsundir hefðu barið í potta og pönnur fyrir utan stjórnarráðshús Serbíu.
Tveggja umferða kosningakerfi er í Serbíu en ekki þurfti að kjósa tvisvar þar sem Vucic fékk 55 prósent atkvæða í fyrstu umferð. Næstflest atkvæði fékk Sasa Jankovic, sextán prósent.
Samkvæmt AP eru flestir mótmælenda nemar. Telja mótmælendur flokk Vucic, SPP, spilltan og hafa hagrætt kosningunum með því að koma í veg fyrir að ríkisfréttastofan RTS upplýsti almenning.
Þá segir í frétt Independent að mótmælendur telji sig ekki fá fjölmiðlaathygli sem skyldi og fjölmiðlar hundsi mótmælin vísvitandi.
Fjöldamótmæli víða í Serbíu
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
