Myndbandið birtist upphaflega á hægrisíðunni Daily Caller, sem Tucker Carlson, aðalþáttastjórnandi Fox News, stofnaði, 28. janúar. Það var sami dagur og mikil mótmæli brutust út gegn ferðabanni Donalds Trump forseta á íbúa múslimalanda.
„Hér er safn af bílum og trukkum að ýta frjálslyndum mótmælendum burt. Kynnið ykkur tæknina; hún gæti reynst gagnleg næstu fjögur árin,“ stóð í lýsingu á myndbandinu á Daily Caller.
Undir myndunum af bílum sem aka á fólk, sumir á verulegum hraða, er leikin tökuútgáfa af lagi rapparans Ludacris „Færðu þig, tík“ [e Move Bitch], að því er segir í frétt vefsíðunnar Slate.
Fox Nation, hluti vefsíðu Fox News sem deilir fréttum og greinum frá öðrum vefsíðum, deildi myndbandinu í kjölfarið.
Meðfylgjandi myndband frá Daily Caller er ekki fyrir viðkvæma. Það sýnir meðal annars bíla sem er ekið á töluverðum hraða á fólk.
Eftir að bandarískir miðlar rifjuðu myndbandið upp eftir hryðjuverkið í Charlottesville þar sem tvítugur maður sem er sagður hallur undir nasisma ók inn í hóp mótmælenda tók Fox News hlekkinn á myndbandið niður og sagðist iðrast þess að hafa birt það. Daily Caller tók myndbandið einnig niður.
Henry Grabar, blaðamaður Slate, bendir hins vegar á að fantasíur um að aka niður mótmælendur hafi verið áberandi á hægri væng bandarískra stjórnmála allt frá því að mótmæli gegn lögregluofbeldi undir merkjum hreyfingarinnar Svört líf skipta máli hófust fyrir fjórum árum.
Þannig hefur slagorðið „Keyrið yfir þá“ verið svar magra öfgahægrimanna við mótmælum víða um Bandaríkin.
Ríkisþingmenn repúblikana hafa lagt fram frumvörp í að minnsta kosti sex ríkjum um að fría ökumenn ábyrgð sem aka á mótmælendur sem loka vegum eða götum, að því er segir í frétt Gizmodo.