Innlent

Mæður sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi eru líklegri til að eignast fyrirbura

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Mæður sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi eru líklegri til að eignast fyrirbura en þær sem ekki hafa orðið fyrir ofbeldi. Nýburar þeirra eru einnig líklegri til að vera fluttir á vökudeild.  Þetta sýna niðurstöður doktorsrannsóknar í lýðheilsuvísindum.

Agnes Gísladóttir varði doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands á dögunum. Ritgerðin sem ber heitið „Meðganga og fæðing hjá konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi“ hafði það að markmiði að skoða hugsanlegt samband á milli kynferðisofbeldis á unglings- eða fullorðinsárum og áhættu á óæskilegum þáttum tengdum meðgöngu og fæðingu síðar á lífsleiðinni.

Í útsettum hópi voru konur sem höfðu leitað til Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis og höfðu að meðaltali sex árum síðar fætt barn. Í óútsettum hópi voru konur sem höfðu ekki leitað til Neyðarmóttökunnar og voru valdar af handahófi úr fæðingaskrá.

„Við skoðuðum bæði meðgöngu, fæðingu og svo heilsuna hjá nýburanum og þegar við skoðuðum meðgönguna þá sáum við að konur sem höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi voru í aukinni áhættu á að takast ekki að hætta að reykja. Svo voru vísbendingar um að það væri aukin áhætta á meðgöngusykursýki. Og það voru vísbendingar um að það þyrfti frekar inngrip í fæðingu,“ segir Agnes en þannig eru konur sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi í meiri áhættu á að þurfa fara í bráðakeisaraskurð.

Þá voru nýburar mæðra sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi léttari og líklegri til að vera fluttir á vökudeild. „Og svo nýburarnir í aukinni áhættu á að fæðast fyrir tímann,“ segir Agnes.

Hún segir að erlendar rannsóknir styðji það að konur sem eru með þunglyndi, kvíða eða áfallastreitu gangi verr að hætta að reykja á meðgöngu. „Ég held að þessar niðurstöður undirstriki mikilvægi þess að það sé góð þjónusta við brotaþola og að það er mikilvægt að reyna efla forvarnaraðgerðir gegn kynferðisofbeldi,“ segir Agnes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×