Skoðun

Áhrifalausir þingmenn á óskilvirku Alþingi

Einar Brynjólfsson skrifar
Nú þegar nokkrir dagar eru til Alþingiskosninga er við hæfi að rifja upp yfirlýsingu Theódóru S. Þorsteinsdóttur frá 26. ágúst sl. um að hún hygðist afsala sér þingsæti sínu um næstu áramót. Reyndar höguðu örlögin því þannig að Theódóra mun ekki þurfa að bíða til áramóta, en það er önnur saga. Skiptar skoðanir hafa verið um réttmæti þeirra ástæðna sem hún gefur upp fyrir ákvörðun sinni, þ.e. að þingmenn hafi lítil völd og að þingið sé óskilvirkt.

Það blasir við að Alþingi er óskilvirkt í meira lagi. Stór hluti allra lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna sem lögð eru fram á hverju þingi dagar uppi. Einhverjir gætu freistast til að segja: „Verða þau mál sem út af standa ekki bara kláruð á næsta þingi?“ Ónei, svo einfalt er það nú ekki. Óafgreidd þingmál, stundum kölluð þingmálahali, falla niður við þinglok. Ef flutningsmenn þeirra vilja halda þeim til streitu verða þeir að mæla fyrir þeim að nýju.

Afleiðingin er sú að mælt er fyrir sömu málum margoft í þingsal. Umfangsmikil nefndavinna er endurtekin hvað eftir annað, m.a. með því að kallað er eftir umsögnum um einstök mál trekk í trekk og að sömu gestirnir eru kallaðir fyrir nefndirnar hvað eftir annað. Það er eflaust hægt að mæla í þúsundum vinnustundirnar sem fara í súginn á hverju þingi vegna þessa vinnulags. Þessi vinnubrögð eru forkastanleg og munu Píratar leggja fram þá tillögu, enn einu sinni, að mál nái að „lifa“ milli þinga, til að auka skilvirkni Alþingis, jafnvel þó þurfi að breyta stjórnarskránni til þess.

Hvað meint valdaleysi þingmanna varðar, þá hefur Theódóra að hluta til rétt fyrir sér. Óbreyttir þingmenn koma fáum málum í gegn ef þau eru framkvæmdarvaldinu ekki þóknanleg, jafnvel þó þeir tilheyri stjórnarmeirihluta. Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er gott dæmi um þingmann í stjórnarmeirihluta sem leggur fram sömu þingmálin hvað eftir annað, án þess þó að þau hljóti endanlega afgreiðslu.

Þessar staðreyndir eru örugglega ekki til þess fallnar að auka virðingu almennings fyrir Alþingi. Ég þykist þess fullviss að virðing Alþingis mun batna til muna ef bragarbót yrði gerð á þessum kerfislæga vanda. Píratar munu leggja sitt af mörkum til þess.

 

Höfundur er þingmaður og oddviti Pírata í í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×