Körfubolti

Presturinn leiddi fjöldasöng þegar að gríska fríkið hitti sitt fólk og tók þjóðsönginn | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Skemmtileg stund.
Skemmtileg stund. mynd/skjáskot
Giannis Antetokounmpo, eða gríska fríkið eins og hann er kallaður, leikmaður Milwaukee Bucks, er smám saman að taka yfir NBA-deildina í körfuna.

Þessi ævintýralega hæfileikaríki körfuboltamaður bætir sig með hverju árinu og hefur svo mikla líkamlega hæfileika að fólk stendur oft á gati yfir tilþrifum hans.

Grikkir eru mikil körfuboltaþjóð og eru því ekkert að hata það að eiga einn besta leikmann NBA-deildarinnar. Þeir sýndu það líka í verki þegar að nokkur hundruð Grikkir mættu á leik Cleveland Cavaliers og Milwaukee þar síðustu nótt.

Giannis var látinn vita að fólkið væri að bíða eftir honum í stúkunni löngu eftir leik og ætlaði hann ekki að trúa hversu margir samlandar hans voru mættir til Ohio í Bandaríkjunum.

„Þið eruð ekki öll Grikkir,“ sagði Giannis en fólkið svaraði með því að taka gríska þjóðsönginn undir stjórn prestsins sem fór fyrir fólkinu.

Gríska fríkið hafði bara gaman að þessari heimsókn og gaf þeim áritun sem vildu og tók svo sjálfumyndband af sér sem má sjá hér að neðan. Heimsóknina alla má svo sjá þar fyrir neðan.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×