Erlent

Slepptu meintum stríðsglæpamönnum til að trufla ekki kosningar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Verkefni SÞ í Mið-Afríkulýðveldinu gengur ekki sem skyldi.
Verkefni SÞ í Mið-Afríkulýðveldinu gengur ekki sem skyldi. Nordicphotos/AFP
Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna í Mið-Afríkulýðveldinu slepptu tveimur meintum stríðsglæpamönnum í desember 2015 án þess að draga þá fyrir rétt.

Þetta kemur fram í trúnaðarskjölum sem BBC hefur undir höndum og fjallaði um í gær. Um er að ræða tvo uppreisnarmenn sem réðust á friðargæsluliða SÞ en það telst til stríðsglæpa.

Atvikið átti sér stað skömmu fyrir kosningar þar í landi og var „hinum meintu stríðsglæpamönnum sleppt“ til að „reyna að raska ekki kosningunum“ eins og segir í skjölunum.

Mennirnir tilheyrðu skæruliðasamtökunum Union pour la Paix en Centrafrique. Þegar þeir nálguðust búðir friðargæslusveitanna í bænum Galaboroma bað friðargæsluliði þá um að stansa og setja hendur á höfuð svo hægt væri að leita á þeim. Þá réðust uppreisnarmennirnir á friðargæsluliðann.

Friðargæsluverkefnið í Mið-­Afríkulýðveldinu hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Í maí fyrr á þessu ári fórust nokkrir friðargæsluliðar til að mynda í árásum uppreisnarmanna.

Þá voru friðargæsluliðar sakaðir um að nauðga miklum fjölda kvenna þar í landi. Í desember á síðasta ári lauk rannsókn Sameinuðu þjóðanna á ásökununum og kom í ljós að 41 friðargæsluliði hafði verið sakaður um nauðgun eða annað kynferðislegt ofbeldi. Alls tóku rannsakendur viðtöl við 139 konur sem lýstu ofbeldi sem þær urðu fyrir árin 2014 og 2015 í Kémo-héraði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×