Allt frá því að Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, samþykkti að starfa með FBI og játaði að hafa logið að lögreglumönnum, hafa Repúblikanar sem styðja Trump gagnrýnt FBI og Muller harðlega. Sífellt meiri harka hefur færst í gagnrýni þeirra og hafa margir þeirra kallað eftir því að Mueller verði rekinn og jafnvel að allir stjórnendur FBI verði reknir einnig.
Gagnrýnendur segja orðræðu forsetans og annarra vera hættulega.
Í dag sagði Trump að það væri „synd og skömm“ hvað hefði komið fyrir forystu FBI. Þá sagði hann „mjög skömmustulegt“ hvernig Alríkislögreglan hefði staðið að rannsókninni varðandi tölvupóstamál Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump.
Seinna í dag hét hann stuðningi við lögregluembætti Bandaríkjanna og sagði „rangt og hættulegt“ að tala gegn þeim embættum.
„Hver sem myrðir lögregluþjón ætti að fá dauðarefsingu,“ sagði Trump.
Hlutar úr ræðu Trump í dag
Hann sagðist ætla að byggja FBI upp að nýju og hún yrði mun betri en áður.
Trump ræddi einnig um skilaboð sem starfsmenn FBI höfðu sent sín á milli í kosningabaráttunni um að Trump væri „fífl“ og hræðileg manneskja. Þessi starfsmenn tóku svo þátt í Rússarannsókninni en um leið og upp komst úr skilaboðin vék Mueller öðrum þeirra frá rannsókninni en hinn hafði þegar lokið störfum sínum.
Þrír þingmenn í dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar hafa kallað eftir því að sú ákvörðun að birta 375 skilaboð starfsmannanna tveggja verði einnig rannsökuð. Þeir vilja að sá starfsmaður sem tók þá ákvörðun að birta skilaboðin hjá völdum fjölmiðlum, á sama tíma og skilboðin voru færð þingmönnum, verði nafngreindur.