Hermenn ríkisstjórnar Bashars al-Assad Sýrlandsforseta og aðrir bandamenn hans hafa tekið rúman þriðjung Austur-Ghouta. Assad-liðar hafa sett gífurlegan þunga í sókn sína undanfarnar vikur og drepið rúmlega 700 í árásum sínum, þar af fjölmörg börn.
Frá þessu greindu eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights í gær. Undanfarna viku hefur verið sótt á jörðu niðri en fyrir það varpaði stjórnarherinn sprengjum úr lofti.
Daglegar pásur hafa verið í átökunum klukkan 9 til 14 undanfarna viku eftir að Rússar gáfu út fyrirskipun þess efnis. Var því fyrirkomulagi komið á þar sem enn bólar ekkert á innleiðingu ályktunar Öryggisráðs SÞ um 30 daga vopnahlé.
Pásunum var komið á til að hægt væri að flytja nauðsynjar til þjáðra og þurfandi íbúa Austur-Ghouta og gera þeim kleift að flýja svæðið. Þótt vika sé liðin af hinum daglegu pásum kom fyrsta bílalest hjálparsamtaka ekki fyrr en í gær. Um var að ræða 46 vöruflutningabíla og fyrstu bílalestina sem kemur inn í Austur-Ghouta frá því um miðjan febrúar.
Heimildarmaður Reuters hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sagði að stjórnarliðar hefðu stöðvað flutningabílana og hirt um sjötíu prósent farmsins áður en bílalestin fékk að fara inn á svæðið.
Hirtu þeir einkum lyf og skurðlækningatæki og er talið að það sé gert til að koma í veg fyrir að uppreisnarmenn fái læknisaðstoð.
