Samflokksmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Repúblikanaflokknum vara hann við því að hrófla við Robert Mueller, sérstökum rannsakanda sem skoðar nú hvort liðsmenn Trumps í kosningabaráttunni hafi átt í óeðlilegum samskiptum við Rússa í aðdraganda kosninganna.
Trump fór mikinn á Twitter um helgina og gagnrýndi rannsóknina harðlega. Hann sagði lið Mueller eingöngu skipað hörðum demókrötum og talaði um nornaveiðar um leið og hann þvertók fyrir möguleikann á því að um eitthvað samstarf við Rússa hafi verið að ræða. Öldungardeildarþingmenn á borð við John McCain og Lindsey Graham hafa komið Mueller, sem er repúblikani, til varnar, og segja að hann eigi að fá að klára verkefnið.

