Ástandið í heimsmálunum virðist ætla að koma illa heim og saman við stefnu VG í öryggis- og varnarmálum. Ekki nóg með að Ísland, sem aðili að NATO, hafi ásamt öðrum ríkjum bandalagsins lýst stuðningi við loftárásir Bandaríkjamanna, Breta og Frakka í Sýrlandi, heldur má ætla að umsvif NATO verði töluverð á næstu misserum og fleiri tilvik komi upp þar sem afstöðu eða aðgerða ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur verði krafist.
Þannig stendur til að mynda stór heræfing NATO-ríkja fyrir dyrum í Noregi í haust og þó að þátttaka Íslendinga verði takmörkuð verður í aðdraganda hennar haldin minni æfing hér á landi með einhverri þátttöku íslenskra stofnana. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu liggur ekki enn fyrir með hvaða hætti Ísland tekur þátt í þeirri æfingu.
Sjá einnig: Stefna VG verði að koma skýrar fram
Í friðarstefnu VG er tekin skýr afstaða gegn heræfingum hér á landi. Raunar er VG eini flokkur landsins sem haft hefur í hávegum þá friðarstefnu íslenskra vinstrimanna sem mótaðist í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar fyrir um 70 árum. Hornsteinar hennar hafa verið úrsögn úr NATO og herinn burt. Þótt flestir hafi talið að síðarnefnda baráttumálinu væri lokið með fullnaðarsigri hafa kólnandi samskipti Vesturlanda og Rússlands haft þau áhrif að Bandaríkjaher hefur fengið nokkurn áhuga á aðstöðu á Keflavíkurvelli á ný.
Þessu heldur Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra Íslands bæði í Moskvu og Washington, fram í ritgerð á vefsvæði sínu. Albert segir þann áhuga þó ekki lúta að fastri viðveru heldur tímabundinni staðsetningu kafbátaleitarflugvéla, annars vegar til æfinga og hins vegar til að leita að og veita rússneskum kafbátum eftirför, sjáist þeir á kreiki nálægt landinu.
En þingmenn flokksins standa keikir. Valið stendur milli friðarstefnunnar og þátttöku í ríkisstjórn.
