„Þetta er ekki það sem samið var um. Hér var samið um að þessi tillaga kæmi til afgreiðslu í þingsal. Ég óska eftir því að hlé verði gert á þessum þingfundi og að þingflokksformenn eða e.t.v. formenn setjist niður á fundi til að fá botn í þetta mál, til að tryggja að þetta mál fái þá afgreiðslu sem samið var um,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins.

„Það sem var rætt um milli formanna flokkanna var að hér myndi eitt mál frá hverjum þingflokki hljóta afgreiðslu í sal. Það var líka ljóst að það kynni að koma fram málsmeðferðartillögur eins og gerðist til að mynda í tilfelli tillögu Pírata um borgaralaun þar sem því máli var vísað til ríkisstjórnar. Hér liggur fyrir málsmeðferðartillaga. Hér er ekki verið að svæfa mál í nefnd eða ekki afgreiða mál, heldur er einmitt verið að afgreiða mál með málsmeðferðartillögu. Það er fullnaðarafgreiðsla. Það gengur ekki að hv. þingmenn leyfi sér að koma hér upp og tala um svik þegar þetta er það sem hefur verið rætt.“
Samið um afgreiðslu í þingsal
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tók upp hanskann fyrir þingmenn Miðflokksins og sagði að hún hefði skilið það allan tímann sem svo að sátt þingflokksformanna fælist í því að eitt mál hvers flokks yrði afgreitt í þingsal.„Við erum ekki að biðja um samþykki. Við tökum alveg höfnuninni, en við viljum fá afstöðu þingsins. Og það er það sem Miðflokkurinn er að fara fram á. Við skulum setjast yfir þetta í rólegheitum áður en þingheimur fer hér upp um allt og æsir sig. Ég mæli eindregið með því að hæstv. forseti geri á þingfundi hið fyrsta,“ sagði Þorgerður Katrín.
Ráðherra sagði málið furðulegt
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sagði sktrautlega stöðu komna upp og taldi ekki mikið tilefni til ágreinings. Þingið hefði þegar tekið einróma afstöðu út úr nefnd og afgreitt í þinginu þingsályktunartillögu um að málið sem deilt væri um ætti að fara til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar. Að skipuð yrði nefnd og kostir og gallar þess metnir.„Svo kemur hér frumvarp sem segir að þetta skuli gera strax með lögum. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé efnislega sama málið og hafi þegar verið afgreitt af þinginu fyrir nokkrum dögum síðan og vísar því þess vegna inn í þann farveg sem þingið sjálft bjó til fyrir það mál fyrir nokkrum dögum. Að þetta skuli vera efni í ágreining um það hvers vegna málið kemst ekki til atkvæðagreiðslu er alveg furðulegt. Málið fær nefndarmeðferð. Það fær fullar þrjár umferðir í þinginu og kemur svo til atkvæðagreiðslu um frávísunartillöguna. Verði hún felld verða greidd atkvæði um málið.“
Umræðan stóð sem fyrr segir í um fjörutíu mínútur og henni lauk með ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis um að hlé yrði gert á þingfundi og boðaði hann formenn þingflokka til fundar við sig um málið. Þingfundur hófst aftur klukkan 14:50 og náði þingheimur að afgreiða tvö mál áður en umræðan snerist aftur að fundarstjórn forseta og meintum svikum við Miðflokkinn. Þegar þetta er skrifað er aftur verið að ræða frávísunartillöguna og samkomulag um þinglok.