Erlent

Strandgæsla Líbíu sögð hafa yfirgefið tvær konur og ungbarn út á ballarhafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Önnur konan og ungbarnið voru dáin þegar sjálfboðaliða bar að garði.
Önnur konan og ungbarnið voru dáin þegar sjálfboðaliða bar að garði. Vísir/AP
Mannréttindasamtökin Proactiva Open Arms segja Strandgæslu Líbíu hafa yfirgefið tvær konur og ungbarn út á ballarhafi eftir að hafa stöðvað för um 160 manna á leið til Evrópu. Önnur konan og ungbarnið dóu en hin konan fannst meðal braks skipsins sem þau ferðuðust með um 80 sjómílur frá ströndum Líbíu.

Samtökin segja konurnar hafa neitað að fara yfir í skip strandgæslunnar og að í kjölfarið hafi þær og ungabarnið verið skyldar eftir í sjónum, eftir að strandgæslan grandaði skipi þeirra.

Talsmaður strandgæslunnar segir að 158 manns hafi verið bjargað úr skipi við strendur Líbíu og þar á meðal hafi verið 34 konur og níu börn. Hann sagði farandfólkið hafa fengið aðstoð og þau hafi verið flutt í flóttamannabúðir í bænum Khoms.



Oscar Camps, forsvarsmaður Proactiva Open Arms, segir ríkisstjórn Ítalíu og samstarfi þeirra við yfirvöld í Líbíu vera um að kenna.

„Þetta er bein afleiðing þess að ráða vopnaða vígahópa til að fá Evrópu til að telja Líbíu vera ríki, með ríkisstjórn og vera öruggt ríki.“

Samtökin birtu í dag myndband af aðgerðum þeirra í Miðjarðarhafi á Twitter.

Sameinuðu þjóðirnar telja 1.443 hafa dáið á ferðinni frá Afríku yfir Miðjarðarhafið til Evrópu það sem af er ári. Langflestir sem leggja í þessa ferð fara til Líbíu og reiða á þjónustu smyglara sem nýtt hafa sér óöldina þar í landi.

Ný ríkisstjórn Ítalíu hefur heitið því að stöðva flæði farandfólks frá Líbíu og hefur boðið yfirvöldum Líbíu fjárhagsaðstoð í stað aðstoðar við að stöðva fólkið.

Mannréttindasamtök hafa fordæmt þessar aðgerðir og segja farandfólk sem flutt sé aftur til Líbíu eiga á hættu að verða fyrir ofbeldi, nauðgunum og jafnvel að enda í þrældómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×