Ólafur hyggst kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar, að því er fram kemur í tilkynningu sem hann sendi frá sér síðdegis í dag.
„Niðurstaðan sýnir að Landsréttur telur ekki nauðsynlegt að traust ríki til hlutleysis réttarins. Í öllu falli er niðurstaða dómsins að Vilhjálmur sé ekki vanhæfur, þrátt fyrir að hann gangist sjálfur við því að í skrifum sonar hans sé að finna „ýmis gildishlaðin ummæli sem bera vitni um neikvæða afstöðu til áfrýjandans sjálfs,“ eins og segir orðrétt í úrskurðinum,“ segir jafnframt í yfirlýsingu Ólafs.
Málflutningur um kröfu Ólafs fór fram í Landsrétti á mánudag. Krafa hans byggði meðal annars á vinskap Vilhjálms við fyrrverandi forseta Hæstaréttar, Markúsar Sigubjörnssonar, sem dæmdi í al-Thani-málinu. Þá hafi sonur Vilhjálms, Finnur Vilhjálmsson, gert svonefnda Hauck & Aufhäuser-skýslu um einkavæðingu Búnaðarbankans. Í henni hafi verið fjallað um þátt Ólafs í kaupum á bankanum. Auk þess hafi annar sonur Vilhjálms, Ingi Freyr Vilhjálmsson, skrifað fjölda frétta um Ólaf í gegnum tíðina.
Skrif sonanna ekki talin valda vanhæfni föðurins
Í úrskurði Landsréttar segir að kynni Markúsar og Vilhjálms verði talin hefðbundin fyrir kunningsskap samferðarmanna á sviði lögfræði og ekki þess eðlis að með réttu megi draga í efa hæfni Vilhjálms til að fara með málið.Þá telur Landsréttur skýrslu Finns ekki tengjast atvikum málsins, og þá hafi Ólafur ekki að öðru leyti bent á nein atvik eða aðstæður sem gætu leitt til þess að störf Finns fyrir rannsóknarnefndina valdi vanhæfi föður hans.
Um skrif Inga Freys segir jafnframt í úrskurði Landsréttar að þau séu ekki þess eðlis að þau hafi áhrif á hæfi föður hans til að dæma í málinu.
Ólafur höfðaði mál gegn embætti ríkissaksóknara og íslenska ríkinu til þess að fá al-Thani-málið tekið upp aftur. Hann var hluthafi í Kaupþingi og var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir markaðsmisnotkun í Hæstarétti í febrúar árið 2015.