Erlent

Göngumenn taldir af í stormi í Himalæjafjöllum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Himalæjafjöllum. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Frá Himalæjafjöllum. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/EPA
Óttast er að níu fjallgöngumenn hafi látið lífið þegar stormur gekk yfir tjaldbúðir þeirra á fjalli í Himalæjafjöllum í vestanverðu Nepal. Áhöfn björgunarþyrlu kom auga á átta lík í leifum búðanna en gat ekki lent þyrlunni vegna veðurs.

Fimm suður-kóreskir fjallgöngumenn og fjórir sjerpar héldu til í tjöldum í grunnbúðum í Gurja-fjalli þegar mikill stormur og hríð gekk þar yfir, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Kim Chang-ho, sem á hraðametið í að ganga á fjórtán hæstu fjöll heims án súrefnisgrímu, er sagður á meðal þeirra sem fórust.

Yfirvöld í Nepal segjast gera ráð fyrir að mennirnir hafi farist af völdum stormsins þar sem tré séu brotin og tjöldin fokin. Þá hafi lík mannanna dreifst um svæðið. Níundi maðurinn hefur enn ekki fundist.

Lögreglulið er sagt á leiðinni að tjaldbúðunum fótgangandi. Ætlunin er þó að senda björgunarþyrlu á staðinn á morgun ef veðrinu hefur slotað þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×