Erlent

Sviptingar í ríkisstjórakosningum

Kjartan Kjartansson skrifar
Stacey Abrams ætlar ekki að leggja árar í bát í ríkisstjórakosningunum í Georgíu þrátt fyrir að andstæðingur hennar hafi verið með forskot í talningu í nótt. Úrslitin þar gætu ráðist í aukakosningum.
Stacey Abrams ætlar ekki að leggja árar í bát í ríkisstjórakosningunum í Georgíu þrátt fyrir að andstæðingur hennar hafi verið með forskot í talningu í nótt. Úrslitin þar gætu ráðist í aukakosningum. Vísir/EPA
Útlit er fyrir að harður slagur um ríkisstjórastólinn í Georgíu dragist á langinn. Frambjóðandi demókrata segist ekki tilbúinn að viðurkenna ósigur ennþá en kosningabaráttan hefur einkennst af ásökunum um svik á báða bóga. Demókratar töpuðu ríkisstjórakosningu á Flórída sem hafði vakið mikla athygli en unnu óvæntan sigur gegn umdeildum ríkisstjóra repúblikana í Wisconsin.

Kosningabaráttan í Georgíu hefur verið sérstaklega hörð en í henni takast á þau Stacey Abrams, frambjóðandi demókrata, og Brian Kemp, frambjóðandi repúblikana sem einnig er innanríkisráðherra ríkisins og æðsti embættismaður þess sem hefur með framkvæmd kosninga að gera.

Þrátt fyrir að Kemp sé með forskot þegar stærsti hluti atkvæða hefur verið talinn segist Abrams ekki ætla að leggja árar í bát. Hún vill bíða þar til öll utankjörfundar- og bráðabrigðaatkvæði hafa verið talin. Litlu munar á að Kemp fari niður fyrir helming atkvæða og þyrfti þá að halda aukakosningu á milli þeirra Abrams. Kemp segir hins vegar að „sigurinn sé nærri“.

Demókratar hafa sakað Kemp um að beita bellibrögðum til að koma í veg fyrir að kjósendur þeirra gætu greitt atkvæði. Í tíð hans hefur Georgía samþykkt strangar reglur um að upplýsingar um kjósendur, þar á meðal nöfn og heimilisföng þeirra, séu nákvæmlega samhljóða öðrum skrám ríkisins.

Þá hóf Kemp rannsókn á meintri tilraun demókrata til þess að brjótast inn í kosningakerfi ríkisins, aðeins örfáum dögum fyrir kosningarnar. Demókratar höfnuðu þeim ásökunum algerlega og sökuðu Kemp um hráslagaleik.

Andew Gillum viðurkenndi ósigur í nótt. Hann hafði virst eiga góða möguleika á að verða fyrsti svarti ríkisstjóri Flórída.Vísir/EPA

Vonarstjarna demókrata á Flórída tapaði

Abrams er ein þriggja frambjóðenda demókrata sem áttu möguleika á að verða fyrsti svarti ríkisstjóri sinna ríkja. Hinir tveir hafa þegar beðið ósigur.

Skoðanakannanir höfðu bent til þess að Andrew Gillum, borgarstjóri Tallahassee, myndi ná kjöri sem ríkisstjóri Flórída. Andstæðingur hans, repúblikaninn Ron DeSantis, fór hins vegar með sigur af hólmi. Repúblikanar hafa nú haldið ríkisstjórastólnum á Flórída í tuttugu ár. DeSantis er mikill aðdáandi Trump forseta. Hann vakti neikvæða athygli á sér þegar hann lét hafa eftir sér að kjósendur ættu ekki að „apa upp“ kosningunum. Gillum sagði síðar í kappræðum þeirra að hann héldi því ekki fram að DeSantis væri rasisti en að rasistar litu á hann sem einn af þeim.

Gillum hafði vakið mikla athygli í kosningabaráttunni og var byrjað að ræða um hann sem mögulega vonarstjörnu demókrata, jafnvel fyrir forsetakosningarnar árið 2020.

Í Maryland laut Ben Jealous í gras fyrir Larry Hogan, frambjóðanda repúblikana.

Scott Walker beitti sér hart gegn verkalýðsfélögum sem ríkisstjóri. Hann bauð sig einnig fram í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar árið 2016 en komst lítt áleiðis.Vísir/EPA

Walker felldur í Wisconsin

Alls var kosið til ríkisstjóra í 36 ríkjum og yfirráðasvæðum Bandaríkjanna. Þrátt fyrir að repúblikanir verði líklega áfram með fleiri ríkisstjórastóla bendir flest til þess að þeir ríkisstjórar demókratar sem ná kjöri ríki yfir meirihluta íbúa Bandaríkjanna.

Þrátt fyrir vonbrigði í ríkjum eins og Flórída og Georgíu voru úrslitin ekki alls staðar vonbrigði fyrir demókrata.

Þannig náðu þeir að fella Scott Walker, ríkisstjóra Wisconsin og fyrrverandi forsetaframbjóðanda. Tony Evers, frambjóðandi demókrata vann nauman sigur í ríkinu þar sem Donald Trump forseti marði sigur á Hillary Clinton í forsetakosningunum árið 2016.

Walker náði fyrst kjöri árið 2010 en niðurskurður og aðgerðir gegn verkalýðsfélögum bökuðu honum óvinsældir. Demókratar reyndu að ógilda kjör hans árið 2012 en án árangurs.

Í Kansas virðist Kris Kobach, frambjóðandi repúblikana og harðlínumaður í innflytjendamálum, hafa beðið ósigur gegn Lauru Kelly, frambjóðanda demókrata. Kobach stýrði meðal annars nefnd sem Trump forseti setti á fót í fyrra til að rannsaka kosningasvindl í Bandaríkjunum sem forsetinn hafði fullyrt að væru tíð. Nefndin var hins vegar leyst upp án þess að hún kæmist að neinum niðurstöðum.


Tengdar fréttir

Útlit fyrir miklar deilur næstu tvö árin

Repúblikanaflokkurinn hefur bætt við nauman meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings og Demókratar hafa tryggt sér meirihluta í fulltrúadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×