San Ysidro-landamærastöðin á milli San Diego í Bandaríkjunum og Tijuana í Mexíkó er sú annasamasta í vesturheimi. Bandarísk yfirvöld ákváðu að loka þeim til þess að koma í veg fyrir að hælisleitendur frá Mið-Ameríku kæmust inn í landið.
Áður hafði mexíkóska lögreglan reynt að dreifa hópi hælisleitenda sem mótmælti því hversu lengi bandarísk yfirvöld væru að fara yfir umsóknir þeirra. Reuters-fréttastofan segir að mótmælin hafi verið friðsamleg. Konur og börn hafi verið á meðal þeirra sem hrópuðu „Við erum ekki glæpamenn! Við leggjum hart að okkur!“.
Í kjölfarið reyndu um 500 manns að gera áhlaup á að landamærunum. Bandarísku landamæraverðirnir studdir herlögreglu og almennum lögreglumönnum brugðust við með því að skjóta táragasi yfir landamærin.
Mexíkósk yfirvöld sögðust ætla að vísa fólkinu sem reyndi að brjóta sér leið yfir landamærin úr landi.
Flýja fátækt og ofbeldi
Tilkynnt var í gær að ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Mexíkó hefðu náð samkomulagi um að flóttamenn frá Mið-Ameríku sem leita hælis í Bandaríkjunum verði vistaðir sunnan landamæranna á meðan farið er yfir umsóknir þeirra.Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undanfarið alið á ótta við farandlest flóttafólks frá Hondúras sem hefur farið fótgangandi norður til Bandaríkjanna undanfarnar vikur. Hann hefur meðal annars látið senda þúsundir hermanna að landamærunum og sagt flóttafólkið ógna öryggi Bandaríkjanna.
„Þeir vilja að við bíðum í Mexíkó en ég er að minnsta kosti orðinn örvæntingarfullur. Litla stelpan mín er veik og ég á ekki einu sinni fyrir mjólk. Ég þoli þetta ekki lengur,“ sagði Joseph García frá Hondúras við Reuters.
Fólkið er sagt flýja sára fátækt og ofbeldi í Hondúras en morðtíðnin þar í landi er ein sú hæsta á byggðu bóli.
US Border Patrol agents fired tear gas at a group of migrants at a major US-Mexico border crossing in San Diego, after they rushed the border area on the Mexican side https://t.co/7TKSxRetn0 pic.twitter.com/147kyHKyJV
— CNN (@CNN) November 26, 2018