Bróðir hondúrska forsetans Juan Orlando Hernández hefur verið handtekinn í Bandaríkjunum vegna gruns um eiturlyfjasmygl. Bróðirinn, Juan Antonio Hernández, betur þekktur sem „Tony“, var handtekinn í Miami í Flórida í gær.
Forsetinn staðfestir í yfirlýsingu að bróðirinn, sem einnig er stjórnmálamaður, hafi verið handtekinn vegna málsins. „Þetta er mikið áfall fyrir fjölskylduna,“ segir í yfirlýsingu forsetans.
Í frétt Reuters segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hondúrskir stjórnmálamenn séu handteknir vegna gruns um eiturlyfjasmygl. Nokkur fjöldi, þar af þrír þingmenn, hefur að undanförnu verið sakaður um viðskipti með eiturlyf í Bandaríkjunum.
Hinn fertugi Tony Hernández starfar sem lögmaður og hefur áður átt sæti á þingi.

