Undanfarnar vikur og jafnvel mánuði hefur Trump átt í viðræðum við Nick Ayers, starfsmannastjóra Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Sá vildi hins vegar ekki starfa sem starfsmannastjóri Trump lengur en til vors og vildi mikil völd með starfinu, samkvæmt heimildum Politico. Trump vill starfsmannastjóra til minnst tveggja ára.

AP fréttaveitan segir nokkra koma til greina í huga Trump. Meðal þeirra eru Mick Mulvaney, sem hefur verið yfir fjárlagagerð ríkisstjórnar Trump, þingmaðurinn Mark Meadows, Steve Mnuchin, fjármálaráðherra, Robert Lighthizer, samningamaður Bandaríkjanna vegna milliríkjaviðskipta, og jafnvel Mattew Whitaker, starfandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og David Bossi, aðstoðarframkvæmdastjóri framboðs Trump.
Sjá einnig: Nýr dómsmálaráðherra Trump var stjórnarmeðlimur í fyrirtæki sem svindlaði á fólki
Þar af hafa þó nokkrir strax látið koma fram að þeir hafi ekki áhuga á starfinu. Mnuchin og Lighthizer hafa báðir sagst ánægðir í sínum stöðum. Samkvæmt heimildum AP hefur Mulvaney ekki áhuga á stöðu starfsmannastjóra Hvíta hússins. Hann er sagður hafa lýst yfir áhuga á því að taka við fjármálaráðuneytinu.
Starfsmannavelta Hvíta hússins hefur verið einstaklega mikil síðan Trump tók við embætti og eru deilur algengar á milli háttsettra starfsmanna Hvíta hússins. Það hefur reynst Trump erfitt að ráða vana embættismenn og ekki bætir úr skák að næstu tvö ár verða að öllum líkindum erfið í Hvíta húsinu. Bæði þarf að huga að endurkjöri Trump og í senn að eiga við komandi rannsóknir fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem stjórnað verður af Demókrötum.
Næsti starfsmannastjóri Trump verður sá þriðji frá því hann tók við embætti þann 20. janúar 2016.