Búist er við því að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundi með hörðustu stuðningsmönnum Brexit í þingflokki Íhaldsflokksins og flokki norðurírskra sambandssinna í dag. Ríkisstjórn May stóð af sér vantrauststillögu í þinginu í gær. Verkamannaflokkurinn ætlar ekki að ræða við May fyrr en hún útilokar útgöngu án samnings um framtíðarsamskipti við Evrópu.
Útgöngusamningi May var hafnað með miklum meirihluta í þinginu á þriðjudagskvöld. Rær hún nú öllum árum að því að ná sátt um hvernig staðið verður að útgöngunni sem áformað er að eigi sér stað 29. mars.
„Ég býð þingmönnum úr öllum flokkum að koma saman og finna leið áfram. Nú er tíminn til að leggja eiginhagsmuni á hilluna,“ sagði May eftir að hún stóð af sér vantraustið í gær.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hafnaði því boði hins vegar og sagði flokkinn ekki tilbúinn í viðræður nema May útilokaði að draga Bretland úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings. Það vildi May ekki gera í gærkvöldi.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að fleiri ráðherrar í ríkisstjórn hennar muni funda með leiðtogum stjórnarandstöðunnar um framhaldið í dag. Aðrir stjórnarandstöðuflokkar eru einnig mótfallnir útgöngu án samnings.
Þannig sagði Ian Blackford, þingflokksformaður Skoska þjóðarflokksins, að frestur á útgöngudagsetningunni, útilokun á útgöngu án samnings og möguleikinn á annarri þjóðaratkvæðagreiðslu væru forsendur viðræðna um framhaldið.
Í svipaðan streng tekur leiðtogi velskra sjálfstæðisinna á breska þinginu. Frjálslyndir demókratar vilja að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)