Theresa May, forsætisráðherra Breta, mun í dag kynna næstu skref varðandi Brexit eftir að breska þingið hafnaði útgöngusamningnum sem ríkisstjórn hennar og Evrópusambandið náðu samkomulagi um á síðasta ári.
BBC greinir frá því að May muni reyna að sannfæra samflokksmenn sína í Íhaldsflokknum sem og þingmenn Norður-írska sambandsflokksins (DUP) um að snúast á sveif með sér og útgöngusamningnum við ESB.
Mun hún reyna að eyða áhyggjum þeirra af framtíðarlandamærum Írlands og Norður-Írlands, sem hafa verið helsti ásteitingarsteinninn í Brexit-málunum öllum.
Fyrir helgi talaði May mikið um að vinna að lausn Brexit þvert á flokka en nú virðist ljóst að Verkamannaflokkurinn ætli ekki í þá vegferð. Því á hún aðeins þann kost í stöðunni að reyna að vinna samflokksmenn sína, sem hingað til hafa verið henni andsnúnir, á sitt band.
Í umfjöllun BBC segir að hún freisti þess nú að sýna leiðtogum Evrópusambandsins fram á að samflokksmenn hennar allir séu reiðubúnir til að greiða útgöngusamningi við ESB sitt atkvæði, þrátt fyrir að samningurinn tryggi ekki að landamærin á Írlandi verði opin um alla framtíð.
Samþykki breska þingið ekki neinn útgöngusamning gæti það farið svo að Bretland yfirgefi ESB þann 29. mars næstkomandi án samnings eða nokkurs aðlögunartímabils.
May leitar leiða til þess að losa um Brexit-hnútinn

Tengdar fréttir

Corbyn hundsaði boð May um viðræður
Formaður Verkamannaflokksins segir viðræður forsætisráðherra um framhaldið í Brexit-málinu sýndarmennsku. Vill að samningslaus útganga sé fyrst tekin af borðinu. Það vill May ekki gera.

Theresa May ræðir við ESB-leiðtoga
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræddust í gær við í síma um næstu skref í Brexit-málinu.

May reynir að ná þverpólitískri sátt um Brexit
Breski forsætisráðherrann ræðir við pólitíska samherja og andstæðinga um framhald Brexit í dag.