Stjórnmálaflokkur á bandi forsætisráðherrans fyrrverandi, Thaksin Shinawatra, hafði tilnefnt prinsessuna Ubolratana Mahidol sem forsætisráðherra flokksins, en þingkosningar fara fram í landinu 24. mars næstkomandi.
Segir konungurinn að slíkt myndi brjóta gegn þeirri hefð að taílenska konungsfjölskyldan skipti sér ekki af stjórnmálum í landinu.
Sjá einnig: Prinsessa vill verða forsætisráðherra
Yfirlýsing Vajiralongkorn konungs var lesin upp á öllum sjónvarpsstöðvum landsins í dag. Sagði hann áformin ganga gegn öllum hefðum landsins, siðum og menningu og séu því talin „sérstaklega óviðeigandi“.

Áður valdið fjaðrafoki
Hin 67 ára Ubolratana Mahidol er eldri systir Vajiralongkorn konungs. Hún hefur áður valdið fjaðrafoki, til að mynda þegar hún gekk að eiga Bandaríkjamanninn Peter Jensen árið 1972 og afsalaði sér með því öllum konunglegum titlum. Þau kynntust þegar hún stundaði nám í Massachusetts Institute of Technology (MIT).Bjó hún í Bandaríkjunum í rúman aldarfjórðung, en eftir skilnað sneri hún aftur til Taílands þar sem konungsfjölskyldan tók henni með opnum örmum á nýjan leik.