Innlent

Játaði á þriðja tug afbrota 

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Rakel
Karlmaður á fertugsaldri, Ingólfur Ágúst Hjörleifsson, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í liðinni viku dæmdur í átján mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir á þriðja tug brota. Ingólfur játaði öll brot sín greiðlega.

Fyrstu brotin áttu sér stað í ágúst 2017 en brotahrinunni lauk í desember síðastliðnum þegar maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Líklegt þótti þá að hann myndi halda brotum sínum áfram yrði hann látinn laus.

Meðal brota sem Ingólfur var sakfelldur fyrir var fjöldi þjófnaðarbrota þar sem vinnuverkfærum, tölvum og tölvuskjáum var stolið. Einnig braust hann inn í bílskúra, bifreiðar og íbúðarhús og hafði meðal annars á brott veiðigræjur, útivistarfatnað, reiðhjól, hjólavagna og hljóðfæri. Þá játaði hann einnig líkamsárás, hótunarbrot og brot gegn fíkniefnalöggjöfinni.

Með brotum sínum rauf Ingólfur skilorð dóms sem hann hlaut í júní 2016 vegna fíkniefnalagabrots. Við ákvörðun refsingar var það metið honum til málsbóta að hann játaði brot sín og aðstoðaði lögreglu við að upplýsa brotin. Í ljósi skilorðsrofsins og fjölda brota þótti ekki unnt að binda refsinguna skilorði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×