Breskir þingmenn ákváðu með naumum meirihluta að útiloka það að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings. 312 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni og 308 greiddu atkvæði gegn henni. Þá greiddu þingmennirnir atkvæði gegn tillögu um að fresta Brexit til 22. maí. Sú tillaga var felld með miklum meirihluta. Þriðja tillagan sem greitt var atkvæði um kom frá ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra, en hún var í raun sú sama og sú fyrsta, því henni var breytt í kjölfar þess að sú fyrsta var samþykkt.
Þetta þýðir að á morgun munu þingmenn greiða atkvæði um að fresta Brexit um óákveðin tíma.
Aðeins tvær og hálf vika er nú til stefnu þar til Bretland ætlar að ganga úr Evrópusambandinu, að öllu óbreyttu, og virðist óreiða ríkja innan veggja þingsins. Philip Hammond, fjármálaráðherra, varaði við því í dag að Brexit án samnings muni leiða til umtalsverðra vandræða í Bretlandi eins og hærra atvinnuleysi, lægri laun og hærra verðlags.
Tillagan um að útiloka Brexit án samnings er í raun ekki bindandi enda veltur það að miklu leyti á Evrópusambandinu. Þingmennirnir sendu ESB þó skilaboð en Theresa May, forsætisráðherra, var mótfallin því að Brexit án samnings yrði útilokað. Hún sagði það gera samningsstöðu Bretlands gagnvart ESB verri.
Eftir atkvæðagreiðslur kvöldsins sagði May að forsvarsmenn ESB hefðu lýst því yfir að samkomulag hennar væri það eina í stöðunni. Hinir möguleikar Bretlands væru að ganga úr sambandinu án samkomulags eða að ekki yrði af Brexit. Hún sagði að síðasti möguleikinn væri ekki af hinu góða því hann myndi skaða hið viðkvæma traust sem kjósendur bæru til þingmanna.
Fréttin hefur verið uppfærð.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)