Erlent

May óskar form­lega eftir að fresta út­göngunni

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur átt í vandræðum með að fá útgöngusáttmálann samþykktan í breska þinginu.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur átt í vandræðum með að fá útgöngusáttmálann samþykktan í breska þinginu. Getty
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur formlega óskað eftir að formlegri útgöngu Bretlands úr ESB verði frestað.

Miðað hefur verið við að Bretland gangi úr sambandinu þann 29. mars næstkomandi en May hefur nú farið fram á þriggja mánaða frestun þannig að Bretland gangi úr sambandinu þann 30. júní.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, segir að sambandið gæti samþykkt að útganga frestist um skemmri tíma, gegn því að breska þingið samþykki útgöngusáttmálann í næstu viku. Enn hafi þó ekki verið samið um nýja útgöngudagsetningu.

May vonast til að frestun á útgöngunni veiti henni svigrúm til að fá útgöngusáttmálann samþykktan. „Að fresta því um lengri tíma þjónar engum,“ sagði May í ræðu sinni í þinginu í dag. Sagðist hún vilja að útgangan yrði vel skipulögð og því hafi verið farið fram á þriggja mánaða frestun.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir í samtali við SVT að ekkert hinna 27 aðildarríkja ESB leggist gegn frestun. Beiðni Bretlands um frestun verði þó að vera vel rökstudd.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×